Risadagur í dag, 1. maí

Þeir eru margir veiðimennirnir sem horfa á 1. maí sem fyrsta veiðidaginn og byrja ekkert að veiða fyrr en sá dagur rennur upp.

Vorið hefur verið mjög hlýtt og gott og við höfum orðið vitni að snemmbúnu flugnaklaki síðustu daga. Veiðin hefur gengið mjög vel í þeim vötnum sem þegar hafa opnað fyrir veiði. Þá má því ætla að það sé langt síðan sumarið hafi farið jafn vel af stað og í ár.

Það eru fjölmörg vötn í Veiðikortinu sem opna ekki fyrir veiði fyrr en 1. maí en fyrir neðan er listi yfir þau vötn:

Vötn sem opna í maí

Vatn Opnar Lokar
Arnarvatn á Melrakkasléttu 1.maí 30.sep
Haugatjarnir í Skriðdal 1.maí 30.sep
Haukadalsvatn í Haukadal 1.maí 30.sep
Hraunhafnarvatn á Melrakkasléttu 1.maí 30.sep
Kleifarvatn í Breiðdal 1.maí 30.sep
Laxárvatn 1.maí 30.sep
Mjóavatn í Breiðdal 1.maí 30.sep
Sléttuhlíðarvatn í landi Hrauns 1.maí 20.sep
Sænautavatn á Jökuldalsheiði 1.maí 20.sep
Úlfljótsvatn – Vesturbakkinn 1.maí 30.sep
Vatnsdalsvatn í Vatnsfirði 1.maí 20.sep
Æðarvatn á Melrakkasléttu 1.maí 30.sep

Einnig viljum við minna veiðimenn á að skrá allan afla rafrænt með því að fara á vefslóðina: veidikortid.is/veidiskraning

Kæru veiðimenn, vonandi eigið þið góðan dag við vötnin á þessum baráttudegi verkalýðsins.

Með veiðikveðju,

Veiðikortið

Elliðavatn opnar fyrir veiði á morgun – sumardaginn fyrsta!

Sumarið er að bresta á og veiðimenn fagna sumri í Elliðavatni á morgun, sumardaginn fyrsta.

Það er fín veðurspá fyrir morgundaginn, léttskýjað með hugsanlegum dropum seinnipartinn og hiti frá 7-13° yfir daginn. Þetta ættu að vera kjöraðstæður fyrir veiðiskap og því tilvalið að fjölmenna og fagna sumarkomunni við Elliðavatnið.

Minnum veiðimenn á vinsamleg tilmæli um að sleppa aftur veiddum laxi í sumar og að sjálfsögðu er mjög mikilvægt að sleppa niðurgöngulaxi (hoplaxi) sem gæti veiðst í vatninu í apríl en hægt er að þekkja þá að því að þeir eru jafnan mjög grannir.

Einnig viljum við minna á að aðeins er heimilt að veiða í Hólmsá á flugu og veiðibann er í Suðurá sem rennur út í Helluvatn.


Hér fyrir ofan er mynd af Ásgeiri, syni hans og Aðalsteini en þeir hafa jafnan verið mættir fyrstir á bakkann við opnun og oftast fengið fyrsta fiskinn úr vatninu ár hvert.  Í fyrra var frekar kalt á sumardaginn fyrsta og fáir veiðimenn við veiðar. Það má búast við mun fleiri veiðimönnum á morgun enda veðurspáin mjög góð.

Hér er hlekkur á upplýsingasíðu vatnsins.

Hér er hlekkur á veiðiskráninguna.

Þeir sem eru ekki ætla að kaupa Veiðikortið geta keypt stakan dag hér.

Gleðilegt sumar!

Veiðikortið

Þingvallavatn opnar fyrir fluguveiði á morgun!

Á morgun, 20. apríl hefst formlega fluguveiðitímabilið í þjóðgarðinum en það stendur yfir frá 20. apríl – 1. júní.   Aðeins er heimilt að veiða með flugu og með flugustöng auk þess sem öllum veiddum urriða skal sleppt aftur.  Það er því ekki heimilt að veiða í þjóðgarðinum með kaststöng fyrr en 1. júní.

Vorveiðin í Þingvallavatni er einn besti tíminn í vatninu til að reyna við stórurriðann sem getur verið allt að 20 pund að þyngd auk þess sem sílableikjan fer á stjá á þessum tíma.

Ath. að gróður er viðkvæmur á þessum tíma og við biðlum til veiðimanna að ganga vel um svæðið.

Við minnum veiðimenn á rafræna veiðiskráningu sem þú getur skrá með því að smella hér.

Einnig viljum við minna á Þingvallabæklinginn sem gefinn var út af Arkó og Nielsen veiðivörum fyrir allmörgum árum en hefur að geyma gagnlegar upplýsingar um veiði og veiðistaði í vatninu.

 

Góða skemmtun!

Veiðikortið

 

Meðalfellsvatn opnaði fyrir veiði í dag!

Í dag opnaði formlega fyrir veiði í Meðalfellsvatni. Vatnið er mjög þægilegt fyrir fjölskyldufólk enda aðkoma góð, stutt frá höfuðborgarsvæðinu og veiðilíkur fínar.  Margir veiðimenn sækja í vatnið snemmsumars enda veiðist talsvert af vænum fiskum þá.

Við viljum þó hvetja menn til að drepa ekki niðurgöngufiska og á það jafnt við um hoplax og sjóbirtinga á leið til sjávar. Þannig að ef að þú veiðir mjög grannan fisk, eru allar líkur á því að um niðurgöngufisk er að ræða og hann hentar ekki vel til átu.

Hér má sjá nánari upplýsingar um Meðalfellsvatnið.

Með kveðju,

Veiðikortið

Kleifarvatn á Reykjanesi opnar fyrir veiði

Í dag, 15. apríl, opnar fyrir veiði í Kleifarvatn á Reykjanesi.  Það er algengt að stórurriðinn í vatninu taki einna best á vorin og má því gera ráð fyrir því að einhverjir séu orðnir spenntir að kíkja í vatnið.

Vötnin í Veiðikortinu opna svo eitt af öðru næstu daga, en í næstu viku opnar til að mynda fyrir veiði í Meðalfellsvatni, Elliðavatni og Þingvallavatni.

Gleðilega páska og við hvetjum veiðimenn til að póst myndum á samfélagsmiðla með myllumerkinu #veiðikortið auk þess sem við minnum á veiðiskráninguna.

Hér fyrir neðan er mynd af Adrian Mazik sem fékk þennan 68 sm urriða í Kleifarvatni í maí í fyrra.

Hér fyrir neðan er hlekkur í upplýsingasíðuna fyrir Kleifarvatn þar sem má skoða fleiri myndir, reglur og fleira sem tengist vatninu.

Með páskakveðju,

Veiðikortið

Kleifarvatn á Reykjanesi

Vatnakvöld Veiðikortsins – Þingvallavatn

Vatnakvöld Veiðikortsins – Þingvallavatn

<< Hér er hlekkur á viðburðinn á Facebook >>

Fimmtudaginn n.k. 31. mars kl. 20-22 verður haldið Vatnakvöld Veiðikortsins í Ölveri í Glæsibæ þar sem farið verður yfir þjóðgarðssvæðið í Þingvallavatni. Við hvetjum áhugasama um að mæta tímanlega til að tryggja sér gott borð og jafnvel snæða af grillinu! Það er frítt inn að sjálfsögðu og nóg af bílastæðum!

Jakob Sindri Þórsson þekkir Þingvallavatnið mjög vel enda veiðir hann þar gríðarlega mikið. Í fyrrasumar veiddi hann um 40 daga við vatnið og er hann bæði að veiða urriðann og bleikjuna og stundar hann veiðar í vatninu frá opnun til loka tímabilsins. Jakob Sindri verður með fyrirlestur á Vatnakvöldinu sem aðdáendur Þingvallavatns ættu alls ekki að láta framhjá sér fara.

Hann mun kynna þjóðgarðssvæðið í Þingvallavatni fyrir veiðimönnum og skiptir veiðisvæðinu upp í svæði og tímabil þannig að veiðimenn fá tækifæri til að soga í sig margra ára þekkingu á einu kvöldi. Einnig mun hann sýna flugur sem virka og fara vel yfir veiðiaðferðir sem virka þannig að þeir sem ekki hafa náð beintengingu við vatnið ættu að vera í betri málum eftir að hafa hlustað á Jakob Sindra.

Það má segja að þessi kynning dekki Þingvallavatn 101, 202 og 303 þannig að byrjendur sem lengra komnir munu klárlega fá eitthvað fyrir sinn snúð.

Það er við hæfi, þar sem fyrirlesturinn fer fram á Sportbarnum Ölveri, að skipta fyrirlestrinum upp líkt og fótboltaleik en við stefnum á að hann verði í 2×45 mínútur, með stuttu hléi í hálfleik. Fyrirlesturinn hefst kl. 20:00 og ætti að ljúka um kl. 22:00.

Þeir sem vilja taka forskot á sæluna og kynnast Jakobi Sindra þá bendum við á viðtal við kappann á hlaðvarpinu Þrír á stöng en þáttinn má nálgast hér:  https://open.spotify.com/episode/4NUOtJBHE4CqdjV10cXdya?si=NVMx7dRoRZ-jIfVYtoGYnQ&context=spotify%3Ashow%3A6uJd3LrdMBpNhy73FpV3n5&fbclid=IwAR3wFC1ceAeC9utrV78Bi2nxs4aa_a1hWv7_v-NJUgmxxVTHiMFcxh5Ok50&nd=1
Auk þess má skoða Instagram síðu hans: https://www.instagram.com/jakobflyfishing/ en þar má finna margar myndir og myndbönd þar sem heyra má hvin í veiðihjólum og þegar fiskur tekur fluguna hjá honum.

Einnig bendum við á veiðimyndbönd sem hann hefur verið að gera og fjalla flest um Þingvallavatn og þjóðgarðssvæðið: https://youtube.com/channel/UCQMUhxvXTPb-3vAuc0PkfGA

Við hvetjum áhugamenn sem vilja tryggja sér góð sæti að mæta extra snemma og nýta þjónustu Ölvers og snæða þar kvöldmat. Hér er hlekkur á matseðilinn: https://www.sportbarinn.is/matse%C3%B0ill

Fluguveiðitímabil með flugustöngum!

Við viljum leggja sérstaka áherslu á að aðeins er heimilt að veiða með flugu og flugustöng á fluguveiðitímabilinu í Þingvallavatni sem stendur yfir frá 20. apríl – 1. júní. Þá er einnig skylda að sleppa veiddum urriða.

Eftir 1. júní er heimilt að veiða með flugu, maðki og spún.

Það er farið að styttast í veiðitímabilið eða innan við mánuður!

Með veiðikveðju,
Veiðikortið

Nýtt veiðitímabil hefst eftir 40 daga!

Vetur líður hratt og þrátt fyrir óvenju mikil snjóalög eru aðeins 40 dagar í að veiðitímabilið hefjist formlega og allt á kafi í snjó!

Það er því ekki seinna vænna en að fara að undirbúa veiðibúnaðinn og fara í gegnum það til að geta áttað sig hvaða búnað þarf að uppfæra fyrir tímabilið.  Við minnum sérstaklega á að uppfæra taumaefni, raða í fluguboxin og kanna hvernig ástand er á vöðlum. Einnig er gott fyrir fluguveiðimenn að losa flugulínurnar af hjólunum og þvo þær með mildri sápu í volgu vatni. Hér má sjá myndband sem sýnir á einfaldan hátt hvernig má þrífa flugulínu.

Nokkur vötn eru opin allt árið eða opna þegar ísa leysir. Hér má skoða töflu um opnunartíma vatnanna.  Veiðitímabilið hefst þó ekki formlega fyrr en 1. apríl þegar vötn eins og Vífilsstaðavatn, Hraunsfjörður, Syðridalsvatn og Þveit opna fyrir veiði.

Nú er því tilvalinn tími til að fara undirbúa veiðiferðir sumarsins og þeir sem ætla að tryggja sér sumarhús í nágrenni við veiðivötn ættu að hafa hraðar hendur við að panta þau en miklar líkur er á því að mikill ferðamannastraumur til landsins verði næsta sumar og því gæti verið erfitt að kaupa gistingu þegar sumarið er komið.

Vonandi verður staðan þannig að það vori hratt og að hægt verði að veiða þegar 1. apríl skellur á!

 

Með veiðikveðju,

Veiðikortið

Veiðikortið 2022 væntanlegt!

Við kynnum með stolti Veiðikortið 2022. Það er væntanlegt innan fárra daga úr prentun þannig að það fer í dreifingu öðru hvoru megin við mánaðarmótin.

Fyrir árið 2022 bætast við möguleikar fyrir ævintýragjarna veiðimenn, en þeir sem fara í Hólmavatn á Hólmavatnsheiði geta nú einnig veitt í Gullhamarsvatni sem og Selvötnum sem eru í stuttu göngufæri frá Hólmavatni.

Veiðikortið hefur verið vinsæl jólagjöf síðustu árin enda höfum við kappkostað við að hvetja veiðimenn og fjölskyldur til að njóta íslensks sumars við falleg veiðivötn. Með Veiðikortið í vasanum geta veiðimenn veitt í 36 veiðivötnum vítt og breitt um landið fyrir aðeins kr. 8.900.-


Veiðikortið 2022

Við látum ykkur vita um leið og kortið er tilbúið til afhendingar, en hægt er að panta það strax á netinu og fá það sent frítt heim um leið og það verður klárt.

Hér fyrir neðan má sjá forsíðu bæklingsins fyrir Veiðikortið 2022.