Kleifarvatn á Reykjanesi opnar fyrir veiði

Í dag, 15. apríl, opnar fyrir veiði í Kleifarvatn á Reykjanesi.  Það er algengt að stórurriðinn í vatninu taki einna best á vorin og má því gera ráð fyrir því að einhverjir séu orðnir spenntir að kíkja í vatnið.

Vötnin í Veiðikortinu opna svo eitt af öðru næstu daga, en í næstu viku opnar til að mynda fyrir veiði í Meðalfellsvatni, Elliðavatni og Þingvallavatni.

Gleðilega páska og við hvetjum veiðimenn til að póst myndum á samfélagsmiðla með myllumerkinu #veiðikortið auk þess sem við minnum á veiðiskráninguna.

Hér fyrir neðan er mynd af Adrian Mazik sem fékk þennan 68 sm urriða í Kleifarvatni í maí í fyrra.

Hér fyrir neðan er hlekkur í upplýsingasíðuna fyrir Kleifarvatn þar sem má skoða fleiri myndir, reglur og fleira sem tengist vatninu.

Með páskakveðju,

Veiðikortið

Kleifarvatn á Reykjanesi

Vatnakvöld Veiðikortsins – Þingvallavatn

Vatnakvöld Veiðikortsins – Þingvallavatn

<< Hér er hlekkur á viðburðinn á Facebook >>

Fimmtudaginn n.k. 31. mars kl. 20-22 verður haldið Vatnakvöld Veiðikortsins í Ölveri í Glæsibæ þar sem farið verður yfir þjóðgarðssvæðið í Þingvallavatni. Við hvetjum áhugasama um að mæta tímanlega til að tryggja sér gott borð og jafnvel snæða af grillinu! Það er frítt inn að sjálfsögðu og nóg af bílastæðum!

Jakob Sindri Þórsson þekkir Þingvallavatnið mjög vel enda veiðir hann þar gríðarlega mikið. Í fyrrasumar veiddi hann um 40 daga við vatnið og er hann bæði að veiða urriðann og bleikjuna og stundar hann veiðar í vatninu frá opnun til loka tímabilsins. Jakob Sindri verður með fyrirlestur á Vatnakvöldinu sem aðdáendur Þingvallavatns ættu alls ekki að láta framhjá sér fara.

Hann mun kynna þjóðgarðssvæðið í Þingvallavatni fyrir veiðimönnum og skiptir veiðisvæðinu upp í svæði og tímabil þannig að veiðimenn fá tækifæri til að soga í sig margra ára þekkingu á einu kvöldi. Einnig mun hann sýna flugur sem virka og fara vel yfir veiðiaðferðir sem virka þannig að þeir sem ekki hafa náð beintengingu við vatnið ættu að vera í betri málum eftir að hafa hlustað á Jakob Sindra.

Það má segja að þessi kynning dekki Þingvallavatn 101, 202 og 303 þannig að byrjendur sem lengra komnir munu klárlega fá eitthvað fyrir sinn snúð.

Það er við hæfi, þar sem fyrirlesturinn fer fram á Sportbarnum Ölveri, að skipta fyrirlestrinum upp líkt og fótboltaleik en við stefnum á að hann verði í 2×45 mínútur, með stuttu hléi í hálfleik. Fyrirlesturinn hefst kl. 20:00 og ætti að ljúka um kl. 22:00.

Þeir sem vilja taka forskot á sæluna og kynnast Jakobi Sindra þá bendum við á viðtal við kappann á hlaðvarpinu Þrír á stöng en þáttinn má nálgast hér:  https://open.spotify.com/episode/4NUOtJBHE4CqdjV10cXdya?si=NVMx7dRoRZ-jIfVYtoGYnQ&context=spotify%3Ashow%3A6uJd3LrdMBpNhy73FpV3n5&fbclid=IwAR3wFC1ceAeC9utrV78Bi2nxs4aa_a1hWv7_v-NJUgmxxVTHiMFcxh5Ok50&nd=1
Auk þess má skoða Instagram síðu hans: https://www.instagram.com/jakobflyfishing/ en þar má finna margar myndir og myndbönd þar sem heyra má hvin í veiðihjólum og þegar fiskur tekur fluguna hjá honum.

Einnig bendum við á veiðimyndbönd sem hann hefur verið að gera og fjalla flest um Þingvallavatn og þjóðgarðssvæðið: https://youtube.com/channel/UCQMUhxvXTPb-3vAuc0PkfGA

Við hvetjum áhugamenn sem vilja tryggja sér góð sæti að mæta extra snemma og nýta þjónustu Ölvers og snæða þar kvöldmat. Hér er hlekkur á matseðilinn: https://www.sportbarinn.is/matse%C3%B0ill

Fluguveiðitímabil með flugustöngum!

Við viljum leggja sérstaka áherslu á að aðeins er heimilt að veiða með flugu og flugustöng á fluguveiðitímabilinu í Þingvallavatni sem stendur yfir frá 20. apríl – 1. júní. Þá er einnig skylda að sleppa veiddum urriða.

Eftir 1. júní er heimilt að veiða með flugu, maðki og spún.

Það er farið að styttast í veiðitímabilið eða innan við mánuður!

Með veiðikveðju,
Veiðikortið

Nýtt veiðitímabil hefst eftir 40 daga!

Vetur líður hratt og þrátt fyrir óvenju mikil snjóalög eru aðeins 40 dagar í að veiðitímabilið hefjist formlega og allt á kafi í snjó!

Það er því ekki seinna vænna en að fara að undirbúa veiðibúnaðinn og fara í gegnum það til að geta áttað sig hvaða búnað þarf að uppfæra fyrir tímabilið.  Við minnum sérstaklega á að uppfæra taumaefni, raða í fluguboxin og kanna hvernig ástand er á vöðlum. Einnig er gott fyrir fluguveiðimenn að losa flugulínurnar af hjólunum og þvo þær með mildri sápu í volgu vatni. Hér má sjá myndband sem sýnir á einfaldan hátt hvernig má þrífa flugulínu.

Nokkur vötn eru opin allt árið eða opna þegar ísa leysir. Hér má skoða töflu um opnunartíma vatnanna.  Veiðitímabilið hefst þó ekki formlega fyrr en 1. apríl þegar vötn eins og Vífilsstaðavatn, Hraunsfjörður, Syðridalsvatn og Þveit opna fyrir veiði.

Nú er því tilvalinn tími til að fara undirbúa veiðiferðir sumarsins og þeir sem ætla að tryggja sér sumarhús í nágrenni við veiðivötn ættu að hafa hraðar hendur við að panta þau en miklar líkur er á því að mikill ferðamannastraumur til landsins verði næsta sumar og því gæti verið erfitt að kaupa gistingu þegar sumarið er komið.

Vonandi verður staðan þannig að það vori hratt og að hægt verði að veiða þegar 1. apríl skellur á!

 

Með veiðikveðju,

Veiðikortið

Veiðikortið 2022 væntanlegt!

Við kynnum með stolti Veiðikortið 2022. Það er væntanlegt innan fárra daga úr prentun þannig að það fer í dreifingu öðru hvoru megin við mánaðarmótin.

Fyrir árið 2022 bætast við möguleikar fyrir ævintýragjarna veiðimenn, en þeir sem fara í Hólmavatn á Hólmavatnsheiði geta nú einnig veitt í Gullhamarsvatni sem og Selvötnum sem eru í stuttu göngufæri frá Hólmavatni.

Veiðikortið hefur verið vinsæl jólagjöf síðustu árin enda höfum við kappkostað við að hvetja veiðimenn og fjölskyldur til að njóta íslensks sumars við falleg veiðivötn. Með Veiðikortið í vasanum geta veiðimenn veitt í 36 veiðivötnum vítt og breitt um landið fyrir aðeins kr. 8.900.-


Veiðikortið 2022

Við látum ykkur vita um leið og kortið er tilbúið til afhendingar, en hægt er að panta það strax á netinu og fá það sent frítt heim um leið og það verður klárt.

Hér fyrir neðan má sjá forsíðu bæklingsins fyrir Veiðikortið 2022.

Urriðadansinn á Þingvöllum

URRIÐADANS Í ÖXARÁ
Hinn árlegi Urriðadans í Öxará verður laugardaginn 16. október og hefst klukkan 14:00.  Jóhannes Sturlaugsson hjá rannsóknafyrirtækinu Laxfiskum mun fræða gesti Þjóðgarðsins á Þingvöllum um urriðann í Þingvallvatni 20. skiptið.
Kynningin hefst við bílastæði P5 þar sem Valhöll áður stóð. Þaðan er gengið meðfram ánni upp undir Drekkingarhyl þar sem risaurriðar og aðrir minni verða skoðaðir og fjallað um lífshætti þeirra.
Gert er ráð fyrir því að kynningin taki um eina og hálfa klukkustund og fá gestir tækifæri til að sjá risaurriðann í návígi og fræðast um þennan stórhöfðingja Þingvallavatns sem á hverju hausti gengur upp Öxará til hrygningar.
Víða við þinghelgina eru bílastæði. Einna flest eru uppi á Haki (P1) og þaðan er um 1200 metra ganga að Valhallarstæðinu. Einnig er slatti af bílastæðum við P2 sem er nær því þar sem gangan endar. Endilega kynnið ykkur bílastæðin á korti sem fylgir myndum hér fyrir neðan.

Þegar viðburðurinn hefst upp úr 14:00 verður líklegast ekki fært til og frá bílastæði P5.

Gott væri ef þeir sem ætla að mæta skrái sig á viðburðinn á Facebook: https://www.facebook.com/events/242462311157954