Gylfi Pálsson sendi okkur skemmtilega veiðisögu frá vorferð í veiðivatn fyrir nokkrum árum.  Sagan er góð hvatning fyrir veiðimenn um að láta slag standa og drífa sig út að veiða þrátt fyrir að veðrið sé ekki upp á marga fiska eins og oft er fyrstu vikur veiðitímabilsins.  Nú eru aðeins tvær vikur í formlega opnun nokkurra vatna þannig að það er gott að undirbúa sig andlega fyrir vorveiðina.
Gefum Gylfa orðið:

Vorkoman var erfið þetta árið, hret með fannkomu og byljum fram yfir jafndægur. Eftir að hafa, í þessum síðasta óveðurskafla, sjö sinnum spáð síðasta hreti gafst ég upp og ákvað að láta það veðurlag sem skaparinn vildi yfir mig ganga. En öll él birtir upp um síðir. Það vitum við veiðimenn. Margoft hefur komið fram að við erum upp til hópa bjartsýnismenn. En það verður að viðurkennast að eftir því sem vetrarbarningurinn og veðurhamurinn verður meiri á útmánuðum þeim mun þrútnari verður vorþráin í brjóstum okkar og því meiri verður fögnuðurinn þegar sólargeislarnir brjótast fram og þíðan býður leysingavatninu að streyma niður fjallshlíðarnar. Þá hlánar líka fönnin í sálinni því að við erum börn bjartra nátta og blíðvirðis þegar hægur andvari strýkur vanga og gárar flöt vatnsins, heimkynna fiskanna.
En íslensk veðrátta er duttlungafull, jafnvel útreikningar eftir veðurtunglamyndum eru ekki óbrigðulir. Ekki er heldur hollt að gera alltaf kröfur til annarra og vita tilgangslaust þegar veðurguðirnir eiga í hlut. Það er líka hressandi að fara vel búinn út í vont veður. Sumir halda því fram að betur veiðist í illviðri en góðviðri. 
Á vorin hef ég aldrei getað stillt mig um að fara með stöng að næsta vatni, jafnvel þótt enn sé á því ísskjöldur og lofthitinn ekki ýkja hár. Ef farið er að blota með landi, þótt íslausa rennan sé ekki nema 10-15 metra breið, er ótrúlega spennandi að kasta upp á ísskörina og draga flugu eða spón hægt út vatnið því að oftar en ekki liggur silungur undir ísbrúninni og hremmir agnið; fyrsti fiskur sumarsins. 
Oftast brýtur suðaustan rok með rigningu upp vetrarísinn og eyðir honum. Þá segja margir að ekki sé hundi út sigandi. Við létum okkur hafa það eitt vorið tveir félagar að heimsækja vatnið okkar í slíku veðri. Vissum að vindstrengurinn lægi út með fjallinu sunnan megin en slægi frá því út á vatnið, það myndi auðvelda köstin.
Þegar kom á staðinn snerum við bílnum upp í vindinn til að missa ekki upp hurðirnar er við stigum út. Okkur leist ekki á blikuna, varla var stætt á bakkanum í verstu hviðunum. En minnugir þess sem góður maður sagði: “Þegar hvasst er gildir að vaða nógu djúpt,” smeygðum við okkur í vöðlur og regnstakka, bundum hettuböndin fast undir kverk, óðum út í og köstuðum lágt. Félagi minn fór á undan með flugu en ég kom hæfilega langt á eftir og kastaði spæni. Veðrið var brjálað, regnið buldi á okkur og við urðum að gæta þess að halla okkur aftur á bak upp í ölduna þegar hörðustu hrinurnar riðu yfir. Það var hörkuágjöf. Hvorugur okkar leit nokkurn tíma um öxl.
Er við vorum komnir út undir miðja hlíð fann ég að í einum öldudalnum tók hjá mér fiskur og hann ekki af minni gerðinni. Ég brá vel við honum svo að strengdist á línubugnum sem vindurinn myndaði. Silungurinn ólmaðist, ég tók vægilega á honum og losaði um bremsuna á hjólinu. Fiskurinn dró út línu og stökk. Á önglinum var stærsti urriði sem ég hafði nokkru sinni séð úr þessu vatni. Nú var um að gera að fara sér í engu óðslega. Skepnan ýmist velti sér í ölduföldunum eða kafaði til botns en smám saman dvínaði krafturinn og mér tókst að þoka henni nær landi.
Ég hafði langa línu úti og stöngina vel sveigða, þarna var malareyri og gott að stranda fiski. Þegar fiskurinn lagðist dró ég hann viðstöðulaust upp í flæðarmálið. Ég vatt  inn línuna um leið og ég fór aftur fyrir fiskinn, lagði frá mér stöngina, tók báðum höndum undir hann og bar hann upp í sinuna á bakkanum ofan við eyrina. Litasamsetningin var fullkomin, brúnn búkur með rauðum deplum, kviðurinn farinn að lýsast. Hann lá þarna í gisnum fölgulum sinuflókanum, það glytti í græn stráin í grasrótinni. Þetta var feitur fiskur, hann hafði greinilega ekki hrygnt haustið áður. Pundarinn sýndi full sex pund.
Ég hafði gleymt óveðrinu en skyggndist um eftir félaga mínum. Hann var kominn á móts við stóra steininn í  brekkunni niður undan hrafnshreiðrinu í klettunum efst í fjallinu. Hann hafði einskis orðið var. Ég setti fiskinn í plast og kom honum fyrir í bakpokanum hjá nestinu og kaffibrúsanum, krækti síðan spænisönglinum í stangarlykkju og herti hjólbremsuna. Sama rokið hélst, aðeins hafði dregið úr rigningunni. Ég rölti  vestur bakkann og út fyrir félaga minn svo ég komst í augnsamband við hann og kallaði: “Kaffi!”.
Við settumst hlémegin við stóra steininn, með pokann á milli okkar. Ég losaði um hálsmálið á regnstakknum en þóttist eiga í vandræðum með hnútinn á hettureiminni og bað félagann að seilast eftir kaffibrúsanum. Hann stakk hendinni niður í pokann, þreifaði eftir brúsanum en kom upp með urriðann, brá honum á loft og sagði steinhissa: “Hva, fékkstu fisk? Ég varð ekki var við neitt!”
Þótt við hefðum verið taldir bilaðir þegar við lögðum upp í þessu foráttuveðri þá sannaðist hið fornkveðna: Að betur er farið en ófarið.
GP
Þrátt fyrir að ekki hafi viðrað til myndatöku á fisknum í sínu náttúrulega umhverfi, var tekin mynd af fengnum eftir hann hafði náð mesta kuldahrollinum úr veiðimanninum við matarborðið.  Það er alltaf ákveðin stemning við að borða fyrsta veidda silung ársins.  Þökkum Gylfa fyrir sendinguna.
 
Fátt er betra en nýveiddur silungur með íslensku smjöri!  Þessi var vænn!
 
Með veiðikveðju,
Veiðikortið

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Rólegt við opnun vatnanna.
Næsta frétt
Styttist verulega í opnun vatnanna.