Nú er draumatími vatnaveiðimannsins í hámarki.  Bjartar nætur og fiskur á mikilli hreyfingu um vötnin. 
 
Við höfum heyrt af góðri veiði í flestum vötnum sem við höfum eitthvað frétt af. 

 
Skagaheiðin hefur verið að gefa vel eins og sjá má á frétt frá 15. júní.  Lárus Óskar fór í sína árlegu veiðiferð á heiðina ásamt Össa og Kalla.  Þeir veiddu um 100 fiska og fengu flesta í Ölvesvatninu, en um 20 fiska fengu þeir í læknum sem rennur úr Ölvesvatni í Fossvatn.  Stór hluti aflans var urriði sem var á bilinu 2-2,5 pund.  Bleikjurnar sem þeir fengu voru smærri en þó fengu þeir eina sem vigtaði 2 pund.  Hér fyrir neðan koma nokkrar myndir úr veiðitúr þeirra félaga, en einnig mál lesa betur um ferðir þeirra á http://zulu.123.is :
 
 
 
 
 
 
 
 
___________________________________________________________
Veiðimenn sem fóru í Hópið fyrir nokkrum dögum fengu mjög fína veiði en þeir fengu vel yfir hundrað fiska þar þannig að ætla mætti að bleikjan sé fyrst að sína sig núna í einhverju mæli. 
Úlfljótsvatn fór rólega af stað en nú virðist bleikjan loksins vera mætt.  Við heyrðum í umsjónaraðila Skátasvæðisins sem tjáði okkur að vel væri farið að veiðast og veiðimenn væru að fá fínar bleikjur.   
Þingvallavatn hefur verið að gefa mjög vel og margir veiðimenn hafa lent í fínni veiði og veitt á annan og jafnvel þriðja tug fiska á skömmum tíma.  Bleikjuveiði í Þingvallavatni er þó oft sýnd veiði en ekki gefin, þannig að flestir eru að kroppa upp nokkrar bleikjur.  Nú er draumatími fyrir þá sem hafa áhuga á að upplifa næturveiði, enda má segja að það sé bjart allan sólarhringinn.  Veiðimaður sem var að veiða í Þingvallavatni fyrir stuttu síðan náði að veiða tvo væna urriða á þurrflugu!  Urriðinn er þó farinn að mestu fjær landi.  
Sigurpáll Davíð Eðvarðsson fékk fallega bleikjuveiði í þjóðgarðinum 19. júní.  Hann var mættur um klukkan átta og veiddi til hálf fimm.  Afraksturinn var 23 bleikjur og var sex af þeim sleppt.  Aflinn var skráður á veidibok.is fyrir þá sem vilja kynna sér aflann betur.  Hér fyrir neðan má sjá mynd af honum hér fyrir neðan með aflann.
 
Sigurpáll með glæsilegan afla úr Þingvallavatni.
 
Í Ljósavatni er allt að lifna við eftir langan vetur.  Það var liðið vel fram í júnímánuð loksins þegar ísinn fór af vatninu.  Nú ætti bleikjan að vera að færast nær landi og eflaust ennþá hægt að krækja í stóru urriðina sem þar búa, en þeir sem þekkja vel til þar fái jafnan nokkra rígvæna urriða snemmsumars.
 
Í Elliðavatni virðast veiðimenn aðallega vera að fá urriða þessa dagana.  Á Facebook síðu Veiðikortsins má sjá nokkrar myndir frá Guðmundi Ásgeirssyni sem teknar voru af fínum afla sem hann hefur verið að fá í Helluavatni og við brúna á milli Helluvatns og Elliðavatns.  Einnig hafa menn verið að fá góða urriða við Þinganes og við Kríunes.
 
Meðalfellsvatn er mjög gjöfult og veiðimenn hafa verið að fá ágætis veiði þar síðustu daga.  Þar er mjög aðgengilegt fyrir fjölskyldur og nokkuð góðar líkur á að yngri kynslóði fái fiska.
 
Hvetjum veiðimenn til að senda okkur myndir og myndasyrpur frá veiðiferðum sumarsins á netfangið veidikortid@veidikortid.is
 
Einnig bendum við á Facebook síðuna okkar en þangað rata oft myndir beint frá bakkanum sem og fréttir tengdar Veiðikortinu á öðrum miðlum.
 
Með veiðikveðju,
Veiðikortið

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Héðan og þaðan – Glæsilegur urriði úr Úlfljótsvatni
Næsta frétt
Góð veiði á Melrakkasléttu!