Hér kemur smá pistill með fréttum frá veiðimönnum síðustu daga.

 
Melrakkaslétta:
Þóroddur Þóroddsson var við veiðar í Hraunhafnarvatni á Melrakkasléttu þann 14. júní s.l.  Hann landaði 13 bleikjum (28-32 cm) og einum urriða (34 cm).  Hann notaði aðallega flugurnar Black Ghost, bleikann Nobbler og Dýrbít. 
 
Vífilsstaðavatn:
Ómar Smári er duglegur að veiða og fer hann reglulega í Vífilsstaðavatnið.  Í síðustu viku skaust hann í vatnið og fékk 14 fiska og hirti 4 af þeim.  Fiskarnir tóku litla svarta þurrflugu og litla svarta púpu.  Þetta var mjög skemmtilegur dagur.  Ómar var með fislétta stöng #2 þannig að hver fiskur var eins og stórfiskur þó þeir væru smáir!  Hann kannaði innihald maga einnar bleikjunnar og var maginn stútfullur af stórum flugum og býflugum í bland.  Sennilega væri ekki galið að prófa að veiða með býflugulíki í vatninu.
 
Ómar Smári með einn af 14 fiskum sem hann veiddi.
 
Ekki amalegur fiskur úr Vífilsstaðavatni á flugustöng #2.
 
Úlfljótsvatn:
Ásdís Viggósdóttir veiddi glæsilegan 9 punda urriða í Úlfljótsvatni um síðustu helgi, 29. júní.  Þessi glæsilegi fiskur var 74 cm að lengd og tók hann maðkinn við Flatey, en það er mjög skemmtilegur veiðistaður neðarlega í Úlfljótsvatni.  Myndirnar hér fyrir neðan eru af Ásdísi með fiskinn góða en myndirnar tók Steinar Guðmundsson.
 
Ásdís með fiskinn góða.
 
 
Þingvallavatn:
Vatnið hefur verið að gefa vel af bleikju síðustu daga og margir veiðimenn verið að setja í flotta fiska.  Mikið virðist vera af bleikju í vatninu og margir hafa rennt fyrir fiski þar það sem af er sumri.  Við hvetjum veiðimenn til að ganga vel um svæðið og henda rusli jafnt eftir sig sjálfa sem og aðra sem kynnu að hafa gleymt rusli við bakkann.
 
Elliðavatn:
Veiðimenn hafa verið að krækja í fiska í Elliðavatni og nú ætti laxinn jafnvel að byrja að sýna sig næstu daga í vatninu.
 
Minnum veiðimenn á að senda okkur fréttir frá vatnasvæðum Veiðikortsins en það eru mörg vötn sem við fáum litlar sem engar fréttir af, þannig að ef að þú ert á veiðiflakki, endilega sendu okkur fréttir og myndir hvort sem veiðimenn vilji koma fram undir nafni eða ekki.  Netfangið okkar er veidikortid@veidikortid.is
 
Með veiðikveðju,
Veiðikortið

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Héðan og þaðan – góð bleikjuveiði um allt land
Næsta frétt
Vatnaveiðin á góðu róli! – Héðan og þaðan