Á morgun, 20. apríl, verður opnað fyrir veiðimenn í Þingvallavatni, fyrir landi þjóðgarðsins.  Það var mikið ævintýri á sama tíma fyrir ári síðan en þá komu nokkrir stórurriðaðar á land. Nú er hætt við því að það verði erfiðara að athafna sig enda ennþá mikill ís í þjóðgarðslandinu og má segja að það sé ís við landið allt frá Vatnsvík að Leirutá í það minnsta.  

Frá Vatnsvík inn að Arnarfelli virðist vera íslaust og væntanlega munu veiðimenn stefna þangað í meira mæli en áður. Hugsanlegt er þó að einhverjar víkur eða vik verði íslaus á morgun.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir sem Cezary Fijakowski tók í gærkvöldi þegar hann var að kanna stöðu mála og þökkum við honum fyrir myndirnar.


Hér má sjá íshelluna sem liggur að landi við vinslælustu veiðistaðina í þjóðgarðnum á Þingvöllum.  


Ísinn er ekki þykkur og mögulegt að vatnið verði fljótt að hreinsa sig.


Þessi mynd er tekin í Vatnkotinu við göngubrýrnar sem voru smíðar til að bæta aðgengi fatlaðra á svæðinu. Við vekjum athygli á því að þær hafa skemmst lítillega í veðurofsanum í vetur og biðjum við veiðimenn því að fara að öllu með gát!


Þessi mynd virðist vera tekin í Vatnsvíkinni eða þar um slóðir og þar er orðið íslaust.  Alveg íslaust er við Arnarfellið sem má sjá vinstra megin á myndinni.

Við vonum annars bara til að geta flutt ykkur jákvæðar veiðifréttir á morgun og hvetjum veiðimenn til að senda okkur línu og einnig til að senda okkur myndir. Einnig er gaman þegar veiðimenn senda myndir inn á Facebooksíðu okkar facebook.com/veidikortid.  

Með veiðikveðju,

Veiðikortið. 

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Elliðavatn opnar á morgun – sumardaginn fyrsta!
Næsta frétt
Kleifarvatn lofar góðu!