Það er búið að vera mikil veðurblíða síðustu daga og fiskurinn tekið vel við sér í hlýindunum. 
Margir veiðimenn hafa lagt leið sína á Þingvelli og veitt mjög vel af bleikju sem kemur vel undan vetri og er mjög væn, en algeng stærð er 2-3 pund.  Veiðimenn sem þekkja vatnið mjög vel hafa verið að fá allt upp í 18 bleikjur á hálfum degi en þó er hún oft sýnd veiði en ekki gefin og það getur verið snúið að fá hana til að taka.

  Ágæt regla er þó að hafa langan taum og draga hægt inn.  Bleikjan á Þingvöllum og víðar er öflugur fiskur og baráttuglaður (smella hér til að sjá myndband af einni sem veiddist í Vatnskoti) .  Mun færri urriðar veiðast nú á Þingvöllum þar sem þeir eru eflaust farnir út á djúpið.
 
Algeng stærð af bleikjunni á Þingvöllum þessa dagana – ca. 2 pund.
Úlfljótsvatn hefur verið að stimpla sig vel inn síðustu daga og fengum við sendar myndir frá Ríkharði Hjálmarssyni þar sem hann er með tvær fallegar bleikjur á í einu, en hann veiddi með tvær flugur í einu, og er sú veiðiaðferð köllum að veiða með "dropper".  Hægt er að skoða t.d. á www.youtube.com margar mismunandi aðferðir við að hnýta aukafluguna á tauminn og hér má t.d. finna eina aðferð.  Hér fyrir neðan má sjá nokkrar af þeim myndum sem hann Ríkharður sendi okkur. 
 
 
 
 
 
Þessi vildi Peacock púpu með kúluhaus.
 
 
Með tvær á í einu í Úlfljótsvatni.
 
Þorsteinn Stefánsson kíkti einnig í Úlfljótsvatn um síðustu helgi og fékk hann 3 bleikjur frá 1 – 1,5 pundi. 
 
Falleg bleikja sem Þorsteinn fékk í Úlfljótsvatni um helgina
 
Hér er Þorsteinn með hluta aflans.
Vötnin í Svínadal hafa einnig verið að gefa vel og hafa veiðimenn verið að fá fína veiði þar síðustu daga.  Lísbet Sigurðardóttir fór í sína fyrstu veiðiferð þangað um helgina og fékk þar sinn fyrsta fisk!  Óskum henni til hamingju með það.
Hér er Lísbet Sigurðardóttir með sinn fyrsta fisk í fyrsta veiðitúr sínum.
Einnig höfum við heyrt á góðri veiði í Kringluvatni fyrir norðan sem og víðar.  Hvetjum veiðimenn til að leyfa okkur að fylgjast með gangi mála.
Með veiðikveðju,
Veiðikortið

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Styttist verulega í opnun vatnanna.
Næsta frétt
Elliðavatn komið í Veiðikortið – Fréttatilkynning