08. jún. 2009
 
Héðan og þaðan síðustu daga.
Hér fyrir neðan er smá samantekt á innsendum fréttum.  Við viljum enn og aftur hvetja veiðimenn til að senda okkur veiðifréttir og einnig eru myndir alltaf skemmtilegar með á netfangið veidikortid@veidikortid.is

 
Hítarvatn:
Eftir að vatnið opnaði í lok maí hefur verið mikil umferð af veiðimönnum í vatni.  Það var algjör mokveiði fyrstu helgina og sæmileg veiði búin að vera þessa helgi.  Eitt leiðindaratvit átti sér þó stað í Hítarvatni í nótt þegar afla veiðimanna og drengs sem var með þeim var stolið!  Þetta er fáheyrt atvik en greinilegt að það borgar sig að vera við öllu búinn.  Rétt er að benda á að það er takmarkaður stangarfjöldi í Hítarvatni og hefur umferðin í vatnið verið langt umfram leyfileg mörk.  Þess vegna viljum við hvetja menn til að lesa reglur í bækling áður en haldið er af stað og láta vita af sér.
 
Meðalfellsvatn.
Eitthvað hefur verið að reytast upp úr Meðalfellsvatni síðustu daga, og eru margir farnir að bíða eftir að sá silfraði láti sjá sig.  Aðallega hafa menn verið að veiða urriða upp í 2,5 pund, en þó mest af smærri fiski.
 
Víkurflóð:
Þó nokkri veiðimenn hafa reynt fyrir sér í Víkurflóði, en þar sem mjög þægilegt að dvelja t.d. með fjölskylduna og hægt að leigja smáhýsi hjá Efri Vík.  Ingimar og Rósa skelltu sér þangað 21. maí og fengu nokkra smávaxna urriða á spón og flugu, en maðurinn sem var að veiða við hliðina á þeim nældi sér í 4 punda fallegan fisk.  Þau stoppuðu stutt eða í um rúman klukkutíma, enda ungviðið ekki alltaf tilbúið að dúlla sér við veiðarnar lengi.
 
Veiðistundirnar eru ógleymanlegar hjá börnunum.  Stolt veiðikona í Víkurflóði.
 
 
 
Ljósavatn:
Það var mikið af fiski að sýna sig í yfirborðinu í Ljósavatni í dag.  Menn hafa verið að fá ágætisveiði þar síðustu daga, bæði bleikjur og urriða. 
 
Þingvellir:
Bleikjan er mætt á svæðið og hafa menn verið að lenda í fínum bleikjuskotum upp á síðkastið.  Hafliði fékk að kynnast því hversu kraftmiklar bleikjurnar geta verið þar en hann fékk rúmlega 5 punda kuðungableikju í þjóðgarðinum í dag. 
 
Boltableikja úr Þingavalli sem veiddist í dag 7. júní – hún vóg 5,5 pund.
 
Haugatjarnir:
Mikið líf er í Haugatjörnum, þrátt fyrir að fiskurinn sé ekki mjög stór.  Fjölskylda lagði leið sína þangað fyrir nokkru og fékk nokkra fiska.
 
Kringluvatn:
Það var mokveiði í Kringluvatni í dag og sumir voru með tugi fiska af mismunandi stærðum, bæði væna og smælki.
 
Hraunfjörður:
Mikið líf hefur einkennt Hraunsfjörðinn það sem af er sumri en oft virðist sem þar kraumi allt inn á milli.  Karl Tómasson var þar um helgina og sá talsvert af fiski við garðinn og einnig inn í botni þegar líða tók á kvöldið.  Hann rakst að ungan veiðimann sem fann sprellifandi kola í flæðarmálinu þannig að nú er spurning hvaða flugu ætli kolinn taki best!
Hér má sjá mynd af Agnari með Kolann góða:
 
Agnar með Kolann sem hann fann í flæðarmálinu í 
Hraunsfirði um helgina.
 
Hópið:
Síðustu vikur hefur heyrst af ágætri veiði í Hópinu.  Menn hafa verið að fá fínar bleikjur og sjóbirtinga inn á milli allt upp í 6 pund það sem við höfum frétt af, en gaman væri að heyra frá veiðimönnum sem voru þar um helgina.  Margt virðist benda til að sjóbleikjan sem á einhverri uppleið aftur, en síðustu ár hefur hún ekki látið fara mikið fyrir sér.
Kleifarvatn:
Það eru alltaf að koma einhverjar fréttir úr Kleifarvatni.  Menn eru ennþá aðeins og fá´ann.  Sigfús fékk fallegan 4 punda urriða þar 27/5 á hornsílaspinner á Lamhagatanganum um kl. 22.00.
 
Urriðinn sem Sigfús fékk í Kleifarvatni.
 
Birtum fleiri veiðifréttir fljótlega.
 
Mk,
Veiðikortið
 
 
 

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Héðan og þaðan – Bleikjan að taka völdin!
Næsta frétt
Kvikasilfur í urriðanum á Þingvöllum