Vífilsstaðavatn
Það er mikið af fiski í Vífilsstaðavatni en gríðarlegt æti í vatninu þannig að samkeppni okkar veiðimanna er ekki auðveld.  Það mátti sjá tugi kría sveima yfir vatninu í fyrradag þegar við áttum leið um svæðið og er það vísbending um mikið æti.  Veiðimenn hafa verið að veiða talsvert af sæmilega vænni bleikju og þó nokkuð af urriða.

  Hér fyrir neðan má sjá mynd af einum vænum urriða úr Vífilsstaðavatni sem er í mjög góðum holdum.  Væntanlega um 2-3 pund.
 
Feitur og fallegur urriði úr Víflsstaðavatni
 
Úlfljótsvatn hefur verið að gefa stöku fiska og hafa veiðimenn bæði verið að setja í boltableikjur og risa urriða þar, en það kemur reyndar ekki á óvart þar sem um sömu stofna og eru á Þingvöllum er að ræða.  
Þorsteinn Stefánsson skrapp í vikunni og fékk 6 punda bleikju.
 
Þorsteinn Stefánsson með boltableikju úr Úlfljótsvatni sem hann fékk í vikunni.
Guðleifur fékk t.d. tæplega 11 punda urriða þar 15. maí á Krókinn og tók baráttan um 30 mínútur og var fiskurinn svo dasaður eftir baráttuna að það tókst ekki að sleppa honum.
 
Guðleifur með tæplega 11 punda fisk sem hann fékk í Úlfljótsvatni á litla púpu sem heitir Krókurinn.
 
Hópið er að detta í gang og má segja að einn besti tíminn í vatninu sé framundan.  Við höfum heyrt af veiðimönnum vera að fá flotta sjóbirtinga þar bæði á Ásbjarnarnesinu sem og út með Björgum.  Bleikjan er aðeins byrjuð að sýna sig en hún ætti að fara að mæta á svæðið í meira mæli á næstu vikum.
 
Mynd frá því í 2010 – en sambærilega veiði hafa menn verið að gera í Hópinu upp á síðkastið.
Hraunsfjörður er aðeins að lifna við og mætti áætla að næstu dagar gætu gefið þar fína veiði.  Veiðimenn sem voru þar um daginn veiddu vel þrátt fyrir að ís hafi verið á hluta vatnsins.  Bleikjan tók vel við ísröndina.  Það verður spennandi að fylgjast með veiðimönnum hvernig gangi þar næstu daga.
 
Meðalfellsvatn hefur verið að gefa ágætlega síðustu daga.  Þangað er stutt að skjótast úr höfuðborginni og aðgengilegt að veiða og þá mjög aðgengilegt fyrir krakka.
 
 
Elliðavatn hefur verið vel stundað og mikið af fiski að sýna sig.  Það hefur verið erfitt samt að fá fiskinn til að taka því þar er greinilega mikið æti hjá fisknum þessa dagana og erfitt að finna flugur sem eru meira freistandi en púpur sem eru að klekjast út þessa dagana.  Það er gaman að sjá yfirborðið krauma af fiski sem er að éta púpur rétt undir yfirborðinu en ekki eins gaman þegar hann tekur ekkert sem maður býður honum!  Varðandi veiðimenn sem stunda Elliðavatnið viljum við biðja menn að ganga vel um svæðið og skilja ekki eftir sig rusl.  Einnig viljum við benda veiðimönnum sem veiða mikið Kríunesmegin að leggja í bílastæði sem eru rétt fyrir utan Kríunes, alls ekki við veginn sem liggur að Sveinsstöðum eða fyrir framan húsin við Vatnsendablett.  Bílastæðamálin munu verða betur kynnt fyrir veiðimönnum á næstu dögum.

Fallegur afli veiðimanns í opnun Elliðavatns 2013.
 
Einnig er gaman að birta mynd sem við fengum senda fyrir nokkrum mínútum, en þar var á ferðinni ungur veiðimaður, Benjamín Jóhann Johnsen, en hann fékk 4 punda urriða í Vatnskotinu á Þingvöllum.
 
Veiðimenn – endilega deilið myndum með okkur og sendið til okkar á veidikortid@veidikortid.is eða póstið beint inn á Facebook síðu okkar
Með veiðikveðju,
Veiðikortið
 

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Svakalegur urriði veiddist í Vatnskoti!
Næsta frétt
Héðan og þaðan – 8. maí