Sjóbleikjuveiðin hefur farið óvenju vel af stað og virðist hún skila sér inn í ár og vötn í mun meira mæli en undanfarin ár auk þess sem hún er betur haldin.

Við heyrðum í Bjarna Júlíussyni sem er meðal annars veiðieftirlitsmaður í Hraunsfirði. Á þessum tíma er algengt að fá bleikju en ekki í því mikla magni sem nú er. Hann er búinn að skjótast nokkrum sinnum  síðustu daga og séð óvenju mikið af bleikju á sveimi auk þess hefur hann veitt óvenju vel. Hann segir ástandið á bleikjunni mjög gott enda er hún feit og stútfull af marfló. Það bendir til þess að skilyrði í sjó séu búin að vera góð og góðar fréttir fyrir komandi sjóbleikjutímabil í þeim vatnakerfum þar sem sjóbleikjan sækir.  Eitt er víst að ágætt er fyrir veiðimenn að vera með flugur sem líkjast marfló í fluguboxum sínum þegar kastað er fyrir sjóbleikjuna í Hraunsfirði, en einnig hafa flugur eins og Krókurinn, Pheasant tail og Langskeggur verið að gefa góða veiði.

Til að bera saman landshlutana lítillega í þessari smáu úttekt heyrðum við í Erlendi Steinari, bleikjusérfræðingi á Akureyri, en hann hefur gert bleikjuna að rannsóknarverkefni sínu og stundað bleikjurannsóknir um árabil og er að vinna doktorsverkefni við Háskóla Íslands þessu tengt. Hann staðfesti að óvenju mikið hefur sést af bleikju í Eyjafjarðará það sem af er sumri.  Einnig bendir hann á að mikið af bleikju hafi verið að veiðast í Hlíðarvatni í Selvogi þó svo það liggi ekki fyrir hversu mikið af þeim afla er sjógengin bleikja. Hann bendir á margar kenningar varðandi tengsl milli bleikjugengdar og laxveiðar en við þorum ekkert að fara inn á þá braut hér enda margar breytur sem hægt er að tengja við veiðitölur í laxveiðinni.

Það verður spennandi að sjá hvort að sjóbleikjan sé að koma aftur í stórum stíl líkt og við þekktum hér fyrir nokkuð mörgum árum en það verður að koma í ljós þegar líður á sumarið.


Hér er Atli Bergmann með fallegan morgunafla úr Hraunsfirði fyrir nokkrum árum.

Með veiðikveðju,

Veiðikortið

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Hítarvatn – veiðin fer vel af stað
Næsta frétt
Mikil veiði í Þveit