Aldrei eins mikið af urriða í þjóðgarðinum!

Veiðimaðurinn Cezary Fijalkowski hefur tekið ástfóstri við þjóðgarðssvæðið í Þingvallavatni. Hann hefur stundað þar urriðaveiðar til fjölda ára og segir að stofninn fari vaxandi með hverju ári. Hann segist aldrei hafa séð eins mikið af urriða þar og í ár og hefur hann veitt vel á þriðja hundrað urriða þar frá því í vor.  Það er samt ekkert sjálfgefið að menn skundi á Þingvöll og nái sér í fisk en hann hefur aflað sér mikillar þekkingar og lagt á sig mikla vinnu við að finna urriðann hverju sinni og auk þess að þróa með sér veiðiaðferðir sem virka við mismunandi aðstæður, en stundum þarf að veiða djúpt og stundum er fiskurinn í yfirborðinu. Einnig er mjög algengt að það sé enginn fiskur. Cezary hefur sennilega farið allt að hundrað ferðir á Þingvöll í sumar og ástæðan er sú að hann er með markmið í gangi. Hann ætlar sér að veiða stærri fisk – en hann stærsti fiskur úr vatninu er 103 cm!

Urriðatímabilið er best á vorin og síðan þegar hausta tekur. Yfir hásumarið fer urriðinn fjær landi. Þessi ágústmánuður hefur verið drjúgur og hefur hann fengið fjölda fiska núna í ágúst og í raun er þetta einn besti ágústmánuður sem hann man eftir. 

Það var fréttnæmt fyrir nokkrum dögum þegar Cezary skaust í vatnið ásamt syni sínum Adam Fijalkowski sem er aðeins 14 ára. Hann byrjaði á því að gera klárt fyrir soninn og setti undir hjá honum púpu til að hann gæti dundað sér í bleikjunni. Adam var varla byrjaður að kasta þegar hann kallar á föður sinn sem var enn að setja upp stöngina sína: "Fiskur! Það er fiskur!".  Það var enginn smá fiskur eins og sjá má að myndinni hér fyrir neðan, en hann var mældur 99 cm. 


Adam Fijalkowski með 99 cm urriða sem hann veiddi um dögunum.

 

 

 

 

 

 

 

Baulárvallavatn – botnlaus veiði!

Sigurður Valdimar Steinþórsson, veiðifélaginu Murtunni, kíkti í Baulárvallavatnið í gær.

Það var logn og 10° hiti og fiskur að vaka um allt vatn.  Hann notaði mýpúpur, óþyngdar, og var í nánast botnlausri töku.

 


 


Góður matfiskur.  Meira var um bleikju en urriða.

 

Með veiðikveðju,

Veiðikortið
 

 

Sauðlauksdalsvatn – nýjar myndir

Hann Ívar Hauksson hefur stundar Sauðlauksdalsvatnið mikið í gegnum árin og þekkir það vel.  Hann er á því að vatnið sé eitt það allra skemmtilegasta veiðivatn á landinu, enda fallegir fiskar og fallegt umhverfir.  Ljós skeljasandur er einkennandi fyrir svæðið en það má í raun líkja þessu við að vera kominn á sólarströnd að vera við vatnið á góðum degi. 

Ívar sendi okkur nokkrar myndir úr safni sínum og á hann þakkir skildar fyrir það, enda alltof fáar myndir sem við höfum fengið frá veiðimönnum frá þessu fallega svæði.