Kleifarvatn hefur verið að koma gríðarlega sterkt inn í vor sem veiðivatn og urriðastofninn sjálfsagt sjaldan verið sterkari.  Frétt okkar í gær um að það væri ekki veiðiveður féll ekki að hörðum veiðimönnum sem fóru í Kleifarvatn í gær. 

Haukur Bjarnason og félagar í Veiðifélaginu Bobbarnir www.123.is/bobbar fóru í gærkvöldið í vatnið og veiddu 7 glæsilega urriða.  Jóhann sendi okkur einnig upplýsingar um að hann hafi fengið 4 fína urriða í vatninu, 1stk 3 pund, 2 stk 2 pund og 1 stk 1 pund. 
Í síðustu viku var Guðmundur Falk líka mjög duglegur og sendi okkur upplýsingar um afla sem og upplýsingar um veðurskilyrði.  Þann 5. maí, í logni, birtu og 8 stiga hita fékk hann á Lambatanga 4 urriða frá 1,5 pundi upp í 2,5 pund.  Daginn eftir, þann 6. maí fékk hann tveggja og 3 punda urriða á sama stað.  Þann 9. maí fékk hann 17 urriða í roki og 3 stiga hita, tveggja til þriggja punda auk þess sem einn var 6 pund.  Allt fékk hann þetta á blanda agn, þ.e.a.s. suma á spún, aðra á beitu og flugu.  Beitan gaf honum bestu veiðina.
Cezary hefur einnig verið að veiða mjög stóra fiska í Kleifarvatninu og hér fyrir neðan má sjá tvær flottar myndir af boltaurriðum úr vatninu frá því í síðustu viku.  Einnig setti hann í tvo risafiska þar hann náði ekki í land enda hafa fiskarnir sjálfsagt verið nálægt 20 pundum.  Á urriðaslóðum þar sem von er á sannköllum drekum duga engin vettlingatök og 10 punda taumur getur hæglega kubbast í sundur.  Cezary er sennilega orðinn einn reynslumesti urriðaveiðimaðurinn í vötnum Veiðikortsins, og þegar hann var inntur eftir upplýsingum vildi hann ráðleggja mönnum að vera með sterka tauma og góðar stangir við veiðarnar þar sem hann hefur horft upp á menn missa marga fiska bara vegna þess að taumurinn er of veikur.  25 punda taumar ættu að klára málið!  Cezary veiðir mest á spún, en stór Toby og Ribber gefið bestu veiðina.  Annars mælir hann einnig með því að menn séu hreyfanlegir og prófi nýja staði til að finna fiskana. 
 
Cezary með boltaurriða úr Kleifarvatni í síðustu viku.   / Mynd Cezary
 
Flottir fiskar veiddir í Kleifarvatni í síðust viku.     /Mynd Cezary
 
Hér fyrir neðan má sjá myndir sem Haukur sendi okkur frá veiðinni í aftakaveðri í gær – en þeir félagar í Bobbunum létu brjálað rok ekki aftra sér frá því að veiða urriða.
 
 
 
Brjálað veður!   – Tekið í Kleifarvatni í gærkvöldi 12. maí.              /Myndir Haukur B.
 
Fleiri myndir má sjá á myndaalbúmi þeirra www.123.is/bobbar
 
Þökkum kærlega fyrir innsendar fréttir og myndir og hvetjum veiðimenn endilega til senda okkur fleiri fréttir og upplýsingar á netfangið veidikortid@veidikortid.is
Með bestu kveðju,
Veiðikortið
 

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Vötnin fyrir norðan að detta inn – flottur urriði úr Þingvallavatni
Næsta frétt
Risaurriði úr Þingvallavatni – 22 pund!