Þrátt fyrir að það sé kominn septebermánuður þá er rétt að benda veiðimönnum á að vatnaveiðin er ennþá gjöful.

Veiðimenn hafa verið að fá ágætis veiði hér og þar í vötnum landsins og má nefna Þingvallavatn og Úlfljótsvatn svo dæmi séu tekin en þar eru bleikjan ennþá að taka.  Einnig hefur urriðinn eitthvað verið að sýna sig þar og eru ljósaskiptin spennandi tími fyrir veiðimenn. Við hvetjum veiðimenn að sjálfsögðu til að sleppa urriðum þó svo það sé ekki skylda á þessum tíma, en fiskur sem kemur nær landi núna er að búa sig undir hrygningu og því hver fiskur dýrmætur fyrir vatnakerfið.

Veiðimenn hafa einnig verið að fá fína veiði í Vestmannsvatni fyrir norðan og tilvalið að kíkja þangað séu menn á þeim slóðum.

Sléttuhlíðarvatn, sem er mitt á milli Siglufjarðar og Hofsós, hefur gefið mjög vel í allt sumar. Vatnið er spenandi kostur og aðgengileg fyrir alla fjölskylduna.

Margir hafa stundað Hraunsfjörðinn síðustu daga og vikur og má segja að bleikjuveiðin hefur oft verið betri. Hugsanlega er hún því ekki mætt í öllu sínu veldi og því rétt að fylgjast með gangi mála þar næstu vikurnar. Það hefur þó einkennt veiðarnar þar síðustu daga að veiðimenn hafa verið að veiða talsvert af flundru en hún virðist taka ágætlega púpur með kúluhausum sem sökkva djúpt.

Í Meðalfellsvatni veiðist ávallt talsvert af laxi þegar líða fer á sumarið og hafa þeir sem þekkja vel til þar verið að fá einn og einn lax. 

Elliðavatn hefur einnig sinn sjarma í september og eru veiðimenn nokkuð iðnir við að stunda vatnasvæðið. Ekki skemmir fyrir áhuganum þegar laxar eru að sýna sig fyrir neðan brúnna sem stendur á milli Helluvatns og Elliðavatns.

Endilega sendið okkur veiðifréttir frá öðrum vatnasvæðum kæru veiðimenn!

 

Með veiðikveðju,

Veiðikortið

 

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Síðasti séns!
Næsta frétt
Salmon and nice chars in Hraunfjordur