Nú eru aðeins fáir veiðidagar eftir í flestum vatnasvæðum Veiðikortsins.  Þrátt fyrir að daginn er tekið að stytta þá er iðulega fín veiðivon og birtan skemmtileg.

Ljósaskiptin er spennandi tími í þeim vötnum sem gefa urriða og höfum við frétt af þó nokkrum veiðimönnum sem hafa verið að fá fína urriða t.d. í Þingvallavatni.  Heimilt er að veiða þar til 15 september. Við hvetjum veiðimenn til að sleppa urriðanum þar ef hægt er.  Bleikjan virðist taka mun betur á morgnana en heldur rólegt hefur verið í bleikjuveiðinni á kvöldin síðustu daga.


Halldór Gunnarsson fékk þennan fallega urriða í Þingvallavatni fyrir fáum dögum, þó ekki í þjóðgarðinum.

Elliðavatn hefur gefið vel í sumar.  Þegar líður á sumarið verða veiðimenn meira varir við laxa í vatninu. Guðmundur Ásgeirsson hefur verið duglegur að stunda vatnið og fengið mjög góða urriða- og bleikjuveiði þar í sumar.  Hann var í vatninu í gær og tók mynd af veiðimanninum Binna með 3 punda lax sem hann fékk í vatninu í gærkvöldi á maðk. 


Hér er Binni með lax sem hann fékk í vatninu í gærkvöldi, 2, september.   /mynd Guðmundur Ásgeirsson

Hraunsfjörður hefur verið að gefa ágætlega nú síðsumars, en margir af unnendum Hraunsfjarðarins telja septembermánuð einn besta mánuðinn þar.  Þar má veiða til 30. september.  

Vestmannsvatnið hefur gefið vel í sumar og veiðimenn verið duglegir að mæta á svæðið.  Svo virðist sem Norðlendingar séu ánægðir með að eiga kost á því að veiða þar og margir veiðimenn komið aftur og aftur í vatnið. Við heyrðum í veiðimanni sem var í fríi í nágrenninu fyrir nokkrum dögum og skaust hann nokkrar ferðir í vatnið.  Hann var að fá 2-4 fiska í hverri ferð.

Nú ætti að vera góður tími til að renna í Baulárvallavatnið og veiða þar í ljósaskiptunum.  Það væri því tilvalið að skella sér á Snæfellsnesið og veiða t.d. fyrri hluta dags í Hraunsfirði og seinni hlutann í Baulárvallavatni.

Meðalfellsvatn er einnig skemmtileg haustveiðivatn.  Þar er alltaf möguleiki á að setja í sjóbirting eða lax þegar líða tekur á sumarið.

Við hvetjum veiðimenn til að senda okkur fréttir og myndir frá sumrinu.  Einnig er tilvalið fyrir veiðimenn sem eru með snjallsíma að merkja myndir á Instagram með "Hashtag-inu" #veiðikortið2014  

Hér geta menn skoðað opnunartíma vatnanna betur til að skoða hvenær vötnin loka!

Með veiðikveðju,

Veiðikortið

 

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Nokkur vötn að loka í dag!
Næsta frétt
Opinn dagur í Hlíðarvatni í Selvogi 24. ágúst.