Nú styttist í opnum nokkurra vatnasvæða.  Það þarf mikið að breytast veðurspáin fyrir næstu daga til að hægt verði að veiða í vinsælustu vötnunum en óvenjulegt þykir að vötnin á suðvestur horninu séu ísilögð á þessum tíma.

  Síðustu ár hefur a.m.k. mestur ís verið farinn af vötnum eins og Vífilsstaðavatni og Meðalfellsvatni en nú er tíðin önnur.  Hitaspáin fyrir næstu daga er þó að skána en á miðvikudaginn 26. mars er gert ráð fyrir hita um allt land og rigningu.  Vonandi hækkar hitinn og þá eru vötnin nokkuð fljót að brjóta af sér ísinn.

Meðalfellsvatn er ísilagt og ekki langt síðan menn voru á hestum á ísilögðu vatninu.  Hugsanlegt er þó að einhverjar víkur verði íslausar í opnun þannig að við fylgjumst vel með gangi mála þar næstu daga.  

Gíslholtsvatn er einnig ísilagt en þar má veiða þegar ísa leysir og hafa veiðimenn því oft getað laumast þangað í mars ef vel viðrar. Veiðimenn hafa ekki getað tekið úr sér veiðihrollinn þar sökum aðstæðna.

Fyrir nokkru heyrðum við að í Hraunsfirði væri eitthvað um opnar vakir í hrauninu en það opnar einnig 1. apríl.

Við kíktum að Vífilsstaðavatni fyrr í dag.  Vatnið er ísilagt en þó virðist ísinn ekki vera þykkur til landsins.  Vatnið verður vonandi veiðanlegt að einhverjum hluta þegar það opnar 1. apríl.  Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá vatninu sem teknar voru í dag.


Þarna er smá vök við brúnna til að kasta í.  

 


Ís er á vatninu, en hann er þó mjög þunnur þarna fyrir botni vatnsins en þar er smá vök eins og sjá má

 


Hálf vetrarlegt um að lítast.

 


Vonum að þessi ís verði farinn eftir 10 daga þegar Vífilsstaðavatnið opnar formlega, þann 1. apríl.

Hvetjum veiðimenn sem eru á faraldsfæti í kringum vötnin að senda okkur upplýsingar varðandi hvort þau séu klár! 

Með veiðikveðju,

Veiðikortið

 

 

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Nokkur vötn opna á morgun!
Næsta frétt
Sauðlauksdalsvatn – nýjar myndir