Efling silungsveiða – Ónýttir möguleikar
Fyrr á tímum voru íslensk veiðivötn aðallega nýtt með veiðum í net, en í dag eru stangaveiðar algengasta nýtingaraðferðin.  Ástæðan er einföld, veiðar á stöng skila miklu meiri arði til eigenda veiðiréttar en netaveiðarnar.  

Eftirspurn eftir veiðitækifærum eykst stöðugt samfara auknum frítíma og bættum efnahag þjóðarinnar, en jafnframt er landið eftirsótt af erlendum veiðimönnum. Þannig hefur verið áætlað að um 55.000 íslendingar stundi stangaveiðar á ári hverju og 5000 erlendir veiðimenn sæki landið árlega heim.
 
 
 
Við nýtingu laxveiðiauðlindarinnar hefur tekist vel til.  Nýtingin er sjálfbær að mestu og byggir á mjög þróuðu kerfi hjá eigendum veiðiréttarins þar sem tekist hefur að hámarka arð af veiðunum.  Framboð í laxveiði hefur verið áætlað um 34.000 stangardagar á ári og verður ekki aukið að marki þar sem veiðimöguleikar á laxi eru víðast hvar fullnýttir.
 
Nýleg skýrsla Hagfræðistofnunar HÍ sýnir að tekjur af stangaveiðum nema 7.8-9.1 milljörðum kr. árlega, þar nema beinar tekjur veiðifélaga 1.0 – 1.2. milljörðum kr.  Laxveiðin á stærstan hlut í þessum tekjum.  Erfitt er að meta hlut silungsveiða, en tekjurnar eru afar litlar miðað við laxveiðina.  Mestur arður af silungsveiðum er á veiðisvæðum þar sem laxveiði er einnig stunduð.  Þar er mesta þekkingin á nýtingu hlunninda og einnig hefur hluta af arði af laxveiðum verið notaður til að bæta silungsveiðinýtinguna.
 
Ljóst er að veiðimenn framtíðarinnar munu í auknum mæli verða að sækja í silungsveiðar ef sókn í veiðar heldur áfram að aukast.  Mörg dæmi eru til um vannýtt veiðivötn .  Einkum á það við um stöðuvötn, en einnig eru dæmi til um silungsveiðiár þar sem bæta má nýtinguna. Þannig má benda á að á Íslandi eru 1811 vötn stærri en 10 hektarar og ljóst að mörg þeirra eru lítið sem ekkert nýtt.  Ástæður vannýtingar á vötnum eru af margvíslegum toga.  Algengt er að ekkert félagskerfi sé til staðar við vötnin og aðgengi að vötnum getur verið erfitt og takmarkað nýtinguna.  Þá getur aðstöðuleysi við vötnin hamlað nýtingu og í sumum tilfellum skortir kynningu á veiðimöguleikum.   Einnig getur skortur á þekkingu um veiðiþol stofna og ræktunarmöguleika hamlað gegn nýtingu þeirra.
 
Landbúnaðarráðherra skipaði á vordögum nefnd sem kanna á leiðir til að bæta og auka verðmæti silungsveiða á landinu.  Markmið er að auka framboð til stangaveiða á silung og stuðla þannig að aukinni verðmætasköpun.  Í nefndinni eru fulltrúar frá Landsambandi veiðifélaga, Landsambandi stangveiðifélaga, Félagi Ferðaþjónustubænda og Veiðimálastofnun.  Nefndin hefur unnið vel á árinu og skilað tillögum um þau verkefni sem þarf að vinna til að ná árangri.  Kortleggja þarf vannýtt veiðivötn og gera kynningarefni sem aðgengilegt yrði á heimasíðu verkefnisins.  Markvisst þarf að kynna silungsveiðar sem fjölskylduíþrótt og  kynna möguleika í silungsveiðinýtingu meðal hagsmunaaðila.
 
Aukin og bætt nýting íslenskra náttúruperla mun veita aukin arð af sjálfbærum veiðum inn í samfélagið og veita fleiri og fjölbreyttari tækifæri til stangaveiða en nú þekkjast.  Nýting veiðivatnanna styrkir einnig samfélagið í sveitum landsins með aukningu atvinnutækifæra og þeirri verðmætasköpun sem veiðarnar  gefa. 
 
 
 
Sigurður Már Einarsson 
Veiðimálastofnun, Vesturlandsdeild
Hvanneyri, 311 Borgarnes                        
 
Erindi flutt á aðalfundi Landssambands Stangaveiðifélaga (17.11.2005)

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Vel heppnuð sýning Sumarið 2006
Næsta frétt
Hítarvatn – veiðiferð