Landssamband stangaveiðifélaga sendi Þingvallanefnd opið bréf sem lesa má hér fyrir neðan.

 
Þingvallanefnd
Skrifstofa þjóðgarðsvarðar 
Austurstræti 12 
101 Reykjavík
 
Reykjavík 27.05.2014.
 
Opið bréf til Þingvallanefndar.
 
Að gefnu tilefni lýsir stjórn Landssamband stangaveiðifélaga yfir ánægju með ráðstafanir 
Þingvallanefndar og Þjóðgarðsvarðar um vorveiði á urriða fyrir landi Þjóðgarðsins á Þingvöllum 
nú í vor. Þær eru til þess fallnar að bæta umgengni í þjóðgarðinum, auka ánægju 
stangaveiðimanna og koma í veg fyrir óskynsamlegt dráp á stórurriða. 
 
Það er mikið ánægjuefni hve vel hefur tekist til um endurreisn urriðastofnsins í Þingvallavatni og 
það er mikilvægt að stofninn sé nytjaður samkvæmt bestu faglegri ráðgjöf sem byggð er á 
þekkingu. Þingvallavatn og umhverfi þess er dýrmætt, og ríkar ástæður til að um það sé 
sómasamlega gengið – af virðingu við einstakt vistkerfi þess. 
 
Vonandi munu einnig bera árangur aðgerðir til að skapa að nýju hrygningarskilyrði fyrir 
urriðann við útfall úr Þingvallavatni, og hefur þá til muna verið bætt það tjón sem 
virkjunarframkvæmdir í Sogi ollu þessum sérstæða stofni. 
 
Nauðsynlegt er að fjalla heildstætt um vistkerfi Þingvallavatns og stýra umgengni og veiði á 
samræmdan hátt. Stjórn LS hvetur veiðiréttarhafa til þess að fjalla um markvissa nýtingu 
veiðihlunninda í Þingvallavatni á vettvangi veiðifélags vatnsins, svo sem lög gera ráð fyrir. 
Í umræðu um urriðaveiði í Þingvallavatni í vor hefur veiðisiðferði stangaveiðimanna borið á 
góma og svokölluð „veiða-sleppa-aðferð“. Það verður hver og einn að taka afstöðu til þess hvort 
honum hugnast þessi umgengni við veiðibráð, líki mönnum hún ekki taka þeir eðlilega ekki þátt í 
slíku. Þetta háttalag hefur hins vegar reynst ágæt aðferð til að stemma stigu við óæskilegu drápi á 
laxfiskum þar sem þess er þörf vegna afkomu stofna. Auk þess að eðlilegt er talið að hlífa 
urriðanum við drápi vegna ástands stofnsins, liggja fyrir staðfestar upplýsingar um að stórurriði 
úr Þingvallavatni sé ekki hæfur til neyslu vegna kvikasilfursinnihalds. 
Umfjöllun um veiði í þjóðgarðinum síðustu misseri hefur hrundið af stað umræðu sem ber að 
fagna. 
 
Stjórn LS hvetur stangaveiðimenn til að fylgja settum reglum og sýna gott fordæmi með góðri 
umgengni. 
 
 
Fyrir hönd stjórnar LS, 
Viktor Guðmundsson formaður. 

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Hátíðarstemning í veiðivöruverslunum um helgina!
Næsta frétt
Char fishing at Lake Þingvellir