Vetur líður hratt og þrátt fyrir óvenju mikil snjóalög eru aðeins 40 dagar í að veiðitímabilið hefjist formlega og allt á kafi í snjó!

Það er því ekki seinna vænna en að fara að undirbúa veiðibúnaðinn og fara í gegnum það til að geta áttað sig hvaða búnað þarf að uppfæra fyrir tímabilið.  Við minnum sérstaklega á að uppfæra taumaefni, raða í fluguboxin og kanna hvernig ástand er á vöðlum. Einnig er gott fyrir fluguveiðimenn að losa flugulínurnar af hjólunum og þvo þær með mildri sápu í volgu vatni. Hér má sjá myndband sem sýnir á einfaldan hátt hvernig má þrífa flugulínu.

Nokkur vötn eru opin allt árið eða opna þegar ísa leysir. Hér má skoða töflu um opnunartíma vatnanna.  Veiðitímabilið hefst þó ekki formlega fyrr en 1. apríl þegar vötn eins og Vífilsstaðavatn, Hraunsfjörður, Syðridalsvatn og Þveit opna fyrir veiði.

Nú er því tilvalinn tími til að fara undirbúa veiðiferðir sumarsins og þeir sem ætla að tryggja sér sumarhús í nágrenni við veiðivötn ættu að hafa hraðar hendur við að panta þau en miklar líkur er á því að mikill ferðamannastraumur til landsins verði næsta sumar og því gæti verið erfitt að kaupa gistingu þegar sumarið er komið.

Vonandi verður staðan þannig að það vori hratt og að hægt verði að veiða þegar 1. apríl skellur á!

 

Með veiðikveðju,

Veiðikortið

Fyrri frétt
Fluguveiðitímabil með flugustöngum!
Næsta frétt
Bæklingur Veiðikortsins 2022 á rafrænu formi