Fengum senda þessa skemmtilegu frásögn frá veiðimanni sem lýsir vel þeirri unaðstilfinningu sem getur fylgt morgunveiði á Þingvöllum.  Gefum veiðimanninum orðið:

 

Hér er mynd af fiskunum sem veiðimaðurinn fékk þessa morgunstund.
 
"Langar að senda ykkur þessa mynd.  Með skemmtilegri morgunveiði sem ég hef orðið aðnjótandi á Þingvöllum.   Efri bleikjan er 47 cm og þrjú pund.  Hin kuðungableikjan er 42 cm og 2 pund.   Urriðinn er 47 cm og rétt um tvö pundin.. spengilegur blessaður.   Ákvað að láta hann enda í maga fjölskyldunnar þar sem hann var ekki stærri!!
Allt var þetta tekið á nýja fimmu sem mér áskotnaðist nýlega. Lungnamjúk!!  Allir tóku þeir sömu fluguna.  Eigin hönnun sem hefur reynst mér vel!
Minni bleikjan tók fyrst og það er hrein unun að fá þessar tveggja punda þingvallaskessur á svona léttar græjur!   Urriðinn kom inn á milli. Hann hamaðist um spegilslétt vatnið eins og óður væri og "þurrkaði" sig þrisvar sinnum meðan mesti krafturinn var í honum… steinhissa að hann skyldi ekki hrista út úr sér… slík voru lætin! 🙂    Ég var saddur.. búinn að njóta magnaða náttúru síðan sex um morguninn…  með góðu morgunkaffi  – klukkan rétt rúmlega níu og ég á síðustu köstunum …  búmm og hin bleikjan tók..  
Það er svo gaman þegar þessa stóru láta svo lítið að kíkja við.  Takan er að hætti hefðarfrúar…  svona eins og það sé verið að narta en þegar þær átta sig á aðstæðum þá breytast þær í djúpsprengjur og það er í eðlinu þeirra að sleikja botninn og það er nákvæmlega það sem þær gera…  sleikja botninn og draga út af hjólinu af festu .. svona eins og togari!   Ég er með eldgamalt fluguhjól með einhverju sem verður vart kallað bremsa og þegar tikkar í henni þá hljómar það eins og gömul dráttarvél.    Tók fast á henni og það var unun að fylgjast með henni reyna allar leiðir í áttina frá tanganum þar sem ég var.   Á einn veginn er mikið dýpi… og varð ég að taka fastar á henni en ég kærði mig um til að hún að strunsaði ekki þar niður.
Það tókst og á endanum eftir mikinn hjartslátt og spennu endaði hún í háfnum…  🙂   Upp úr þessu fór að hvessa að sunnan og sjálfhætt enda nóg komið."
Við þökkum veiðimanninum fyrir að leyfa okkur njóta og hvetjum menn til að skunda á Þingvelli og njóta – bleikjan er mætt á svæðið!
 
Með veiðikveðju,
Veiðikortið

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Hraunfjörðurinn að detta í gírinn!
Næsta frétt
Enn veiðast stórurriðar á Þingvöllum!