Góð bleikjuveiði í Úlfljótsvatni og Þingavallavatni:
Það er búið að vera mjög góð bleikjuveiði í Úlfljótsvatni og Þingvallavatni síðustu daga og vikur.  Margir veiðimenn hafa verið að fá þar tugi fiska á skömmum tíma.  Þorsteinn Stefánsson er búinn að vera duglegur að kíkja í Úlfljótsvatnið og um helgina veiddi hann á laugardagskvöldið og fram á sunnudag og á þessum tíma fékk hann 33 bleikjur frá 0,5 pundi upp í 1,5 pund.  Einnig fékk hann fallega veiði þar þann 9. júlí.

 
Fallegar bleikjur sem Þorsteinn Stefánsson fékk um síðustu helgi í Úlfljótsvatni en heildaraflinn var 33 bleikjur.
 
Það er ótrúlega fallegt að veiða í sólsetrinu og gaman að fylgjast með litabrigðunum og sjá hversu hratt litirnir breytast.
 
Hér má sjá bleikjur sem Þorsteinn fékk 9. júlí í Úlfljótsvatni.
Hraunsfjörður:
Margir hafa kíkt í Hraunsfjörðinn síðustu daga og vikur.  Bleikjan lætur eitthvað á sér standa þó svo veiðimenn hafa lent í ágætisskotum inn á milli.. Það sem vekur hins vegar athygli er að svo virðist sem flundran sé að koma sér fyrir í auknu mæli í vötnum sem tengjast sjónum, sbr. Hraunsfirði, Hópinu, Sauðlauksdalsvatni svo einhver vötn séu nefnd.  Inn í botni Hraunsfjarðar mátti sjá flyndruseyði iðandi um botninn í hundruðatali fyrir nokkrum dögum og er það von okkar að hún sé ekki að fjölga sér um of því fiskurinn er talinn skaðvaldur í vatnakerfum landsins þar sem hún er dugleg að éta hrogn og seyði.  Hér má fræðast meira um flundruna en hún á að vera ágætis matfiskur.  Fyrir þá sem vilja prófa að elda flundru þá er hægt að finna margar uppskriftir með því að slá inn "cooking flounder" í Google leitarvélinni.
 
Umgengni:
Enn og aftur viljum við ítreka við veiðimenn að ganga vel um náttúru landsins, en það voru ekki falleg ummerki sem blöstu við í Hraunsfirði þegar veiðimaður áttu þar leið um.  Einhverjir óprúttnir aðilar höfðu búið sér til eldstæði á grænum árbakkanum fyrir ekki svo löngu síðan.  Ummerki sem þessu eru ekki fallegt og mun eðlilegra væri ef að þessir aðilar hefðu kveikt opinn eld í mölinni fyrst þeir voru að því á annað borð.  Einnig mátti þar finna mikið magn af sígarettustubbum og brotnum flöskum.  Þetta kallar maður að skilja eftir sig sviðna jörð!  Hér fyrir neðan má sjá myndir af vettvangi.
 
Sviðin jörð.  Óprúttnir aðilar bjuggu sér til eldstæði á þessum annars fallega stað. 
 
Hér má sjá hvar menn ákváðu að búa sér til eldstæði án þess að taka tilliti til sjónmengunar af völdum þess.
 
Meðalfellsvatn:
Mikið líf hefur verið í Meðalfellsvatni þrátt fyrir að fiskarnir séu ekki stórir.  Nú fer að koma sá tími í Meðalfellsvatni að veiðimenn fari að fá í auknum mæli lax á stöng en mikið magn af laxi veiðist í vatninu á hverju ári.  Við viljum hvetja veiðimenn sem veiða stærri lax en 70 cm að sleppa honum aftur, en þær veiðireglur gilda í Laxá í Kjós og Bugðu til verndar stofninum.
 
Sjóbleikjan:
Það eru gleðifréttir að sjóbleikjan virðist vera farin á ganga að fullum kraftir í margar sjóbleikjuár landsins og má þá búast við því að menn fari að lenda í góðum bleikjuskotum t.d. í Hópinu, en veiði hefur verið mjög dræm þar það sem af er sumri.  
Við hvetjum veiðimenn endilega til að senda okkur fréttir af veiðisvæðum Veiðikortsins til að miðla til annarra veiðimanna.  Best er að senda fréttir og myndir á veidikortid@veidikortid.is
 
 
Með veiðikveðju,
Veiðikortið 
 

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Héðan og þaðan – fínt veiði í vötnunum
Næsta frétt
Ævintýri við Þingvallavatn – 17 punda urriði á fjarka!