Héðan og þaðan – fín veiði í vötnunum.
Það er búið að vera fínn gangur í vötnunum.  Mikið af bleikju er að veiðast á Þingvöllum og Úlfljótsvatni, eins og venjan er á þessum tíma.  Veiðimenn bíða þó ólmir eftir góðum sjóbleikjuskotum í Hraunsfirði og Hópinu svo dæmi séu tekin.
Stefán Ómar Stefánsson skellti sér í tvo tíma í Úlfljótsvatnið og fékk 11 bleikjur á aðeins 2 tímum og var 4 minnstu bleikjunum sleppt.  Það kraumaði í öllum víkum og mikið líf í gangi en hann var í vatninu 18/7.  Stærsta bleikjan var um 2 pund.

Bleikjur sem Stefán fékk í Úlfjótsvatni fyrir nokkrum dögum.
 
 
Sléttuhlíðarvatn:
Ingi og Róbert Gunnarssynir fóru ásamt föður sínum í Sléttuhlíðarvatn í Skagafirði.  Þeir stoppuðu í um tvo tíma og veiðimenn voru mjög ánægðir með aflann á þessum stutta tíma sem þeir stoppuðu.
 
Ingi og Róbert Gunnarssynir með flottan afla úr Sléttuhlíðarvatni.
 
 
Kleifarvatn virðist vera að lifna við en Einar Aðalsteinsson fór þangað 16. júlí og fékk góða veiði.  
Bleikjuveiðin greinilega að lifna við í Kleifarvatni
 
 
Á Skagaheiðinni er iðulega fín veiði.  Gunnar B. Ólafsson fór þangað ásamt tveimur veiðimönnum.  Á einum degi fengu þeir félagarnir 75 fiska úr Selvatni, Ölvesvatni og Grunnutjörn.  Í Selvatni fengu þeir urriða á maðk og spún.  Í Ölvesvatni fengu þeir 6 urriða á púpur og í Grunnutjörn veiddist eingöngu bleikja og tók hún grimmt fluguna appelsínugulan Kött.    Hér fyrir neðan má sjá mynd af afla dagsins en þeir voru við veiðar 15. júlí.
 
Hér má sjá mikla veiði á Skagaheiði 15. júlí.
 
Kristján Friðriksson og frú fóru upp á Hólmavatn upp á Hólmavatnsheiði, en það er eitt af nýju vötnunum í Veiðikortinu.  Kristján hefur gert ferðinni góð skil á veiðiblogginu sínu, Flugur og Skröksögur og má lesa um það með því að smella hér:  en svo virðist sem mikið líf sé þar.
Við viljum þakka veiðimönnum fyrir að miðla þessum myndum og fréttum með okkur og enn og aftur hvetjum við veiðimenn til að miðla til okkar fréttum og myndum af veiðiferðum í vatnasvæði Veiðikortsins.  Einnig viljum við minna veiðimenn á að þægilegt er að bóka afla á www.veidibok.is en þar má bóka veiði rafrænt auk þess sem veiðimenn geta haldið utan um veiðiferðir sínar með myndum og fleiri skemmtilegum upplýsingum.  Þar má t.d. sjá mynd af boltableikju sem veiddist í Kleifarvatni 18. júlí síðastliðinn.
 
Með veiðikveðju,
Veiðikortið

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Héðan og þaðan – bleikjan mætt í Hraunsfjörðinn!
Næsta frétt
Héðan og þaðan. Mikið af flundru í Hraunsfirði.