Héðan og þaðan – bleikjan mætt í Hraunsfjörðinn
Veiðimenn halda áfram að fá blíðskapar veiðiveður og margir veiðimenn gert fína veiði.  Flest vötnin eru að gefa ágætisveiði þó svo við höfum ekki verið að fá mikið af fréttum frá veiðimönnum.
Einar Johnsson og Stefán Haukur Erlingsson lentu í miklum ævintýrum og lönduðu sannkölluðum höfðingja á flugu við Þingvallavatn 26. júlí síðastliðinn og sendu þeir okkur veiðisöguna hér fyrir neðan sem við birtum bara í heild sinni.

Hérna kemur veiðisagan frá Stefáni Hauki Erlingssyni:
 
Ef þið veiðið á Þingvöllum munið að binda góða hnúta og ekki taka með ykkur plastpoka.
Ég og vinur minn Einar fórum í gærkvöldi í þjóðgarðinn kl 20:00 vopnaðir veiðarfærum, kaffibrúsa, og einu súkkulaðistykki. Það var fullkomið veiðiveður þar sem fiskur var vakandi um allt.
Áður en við lögðum af stað spurði Einar hvort ég hefði ekki tekið með plastpoka undir fiskinn. Ég var nú ekki á því þar sem það boðar ekki góða veiði að taka með poka undir bráðina en stakk ég þó einum poka í vasann, sem voru klár mistök.
Við settum í risa urriða sem var mun sterkari en þessi hér fyrir neðan. Bremsan var vel stíf og hann rauk með allt út og við litum bara gáttaðir á hvorn annan og áður en fyrr varði var hann búinn að slíta fluguna af taumnum.
Þannig að við héldum áfram við veiðar með adrenalínið í blóðinu. Einar fékk svaka töku og hnúturinn raknaði af flotholdinu hjá honum og síðan setti ég í væna bleikju og missti hana við bakkann. 
Jæja sagði ég, og tók helvítis plastpokann úr vasanum og reif hann í tætlur! (ég gekk vitaskuld vel um svæðið og skildi ekkert rusl eftir okkur)
Um 11 leytið ákveðum við að taka eitt kast í viðbót áður en haldið væri heim á leið. Og hvað haldið þið, 6,3 kg urriði bítur á. Ég hefði aldrei trúað því hvað þessir fiskar eru sterkir. 
Hann rauk með megnið af línunni út mörgum sinnum og var upphófst mikil barátta við að landa skeppnunni.
Við vorum vopnaðir maðki og flugu og báðir þessir tóku flugu sem er ekki leiðinlegt. 
Æðisleg náttura, góður félagsskapur, fínt kaffi, og met fiskur hjá okkur í gull-minninga safnið. Þessu kvöldi gleymum við félagarnir aldrei. 
 
Hér fyrir neðan má sjá mynd af þeim félögum með urriðann góða.
 
 
Þorsteinn Stefánsson fór á Þingvelli 20. júlí og fékk hann 16 bleikjur og þar af voru 5 bleikjur sem vógu 5-6 pund!  Það er óvenju hátt hlutfall af stórbleikju og vel af sér vikið.
 
 
 
 
 
Í Hraunsfirði hafa verið að ganga stórar bleikjugöngur og sveimar hún í stórum torfum um fjörðinn.  Bleikjan er þó sýnd veiði en ekki gefin því oft lítur hún ekki við neinu agni.  Þegar bleikjan vill ekki taka þá getur verið ágætt breyta um aðferð og oftar en ekki getur verið árangursríkt að reyna að breyta yfir í þurrflugu hafi menn reynt púpuna til þrautar.  Það verður gaman þegar bleikjan byrjar að taka!
 
Fallegur dagur í Hraunsfirði.
 
Við þökkum veiðimönnum fyrir fréttirnar og myndirnar og hvetjum fleiri veiðimenn til að senda okkur upplýsingar af öðrum vatnasvæðum sem og myndir ef menn eiga myndir til að deila með öðrum veiðimönnum.
 
Góða verslunarmanna- og veiðihelgi!
Veiðikortið
 
 

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Veiðisaga úr Hraunsfirði – flottir fiskar úr Hólmavatni og Þingvallavatni
Næsta frétt
Héðan og þaðan – fínt veiði í vötnunum