Veiði hefur farið vel af stað í vötnum Veiðikortsins.  Veður hefur verið gott, eða a.m.k. mun betra heldur en í fyrra og fiskur kominn á hreyfingu í leit að æti.  

Elliðavatn hefur verið að gefa vel og eru dæmi um að veiðimenn hafi verið að fá fallega urriða þar síðustu daga. Flestir fiskarnir hafa verið að koma á land í Helluvatni, við Kríunes, Þingnes, út á Engjum, við Elliðabæinn og á milli veiðistaða.  Ragna Fróðadóttir kíkti í Helluvatnið í gær og fékk þennan fallega urriða sem má sjá hér fyrir neðan. Fiskurinn tók maðkinn og er hann um 4 pund.


Ragna með fallegan urriða úr Helluvatni.

Bleikjan er mætt á helstu veiðistaðina í Þingvallavatni.  Þó svo það sé ekki endilega mikið af henni á þessum tíma, þá er þetta skemmtilegur tíma þar vegna þess að bleikja er iðulega mjög væn á þessum tíma.  Veiðimenn hafa verið að fá mjög feitar og fallegar bleikjur þar síðustu daga, þá aðallega í kringum Vatnskotið og Öfugsnáðann.  Enn eru veiðimenn að setja í risaurriða þó svo hann veiðist í minna mæli nú en fyrr í maí.

Í næsta nágrenni við Þingvelli er Úlfljótsvatn, en þar er bleikjan ekki farin að sýna sig mikið en veiðimaður sem hafði samband við okkur fékk flottan urriða þar um daginn sem var um 12 pund. 

Vífilsstaðavatn hefur verið að gefa ótrúlega vel það sem af er og er hún oft mjög nálægt landi. Hún virðist taka vel pínulitlar púpur sem og þurrflugu þegar hún er í miklu stuði bleikjan.

Sauðlauksdalsvatn hefur einnig verið að gefa mjög vel. Gústaf Gústafsson fór í vatnið fyrir nokkrum dögum og má lesa meira um það HÉR.

Við höfum ekki verið að fá fréttir frá öðrum vatnasvæðum innan Veiðikortsins nýlega, þannig að við köllum eftir fréttum hér með.

Rétt er að benda á að stutt er í að Hítarvatn verði formlega opnað en heimilt er að byrja að veiða þar síðustu helgina í maí.  Þar veiðist oft vel skömmu eftir opnun og vonandi er búið að fara yfir veginn þannig að kanna hvort hann sé ekki orðin ökufær inn að vatni.  

 

Fín veðurspá er um helgina, þannig að það er um að gera fyrir veiðimenn að gera sig klára og drífa sig í veiði.  

 

Með veiðikveðju,

Veiðikoritð

 

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Góð bleikjuveiði í Þingvallavatni
Næsta frétt
Veiði hafin í Vestmannsvatni.