Blautulón í Veiðikortið!

Veiðikortið bætir við Blautulónum sem er skemmtilegur kostur á hálendinu fyrir þá sem eru á ferð um Fjallabak.

Blautulón má finna á hálendinu í Skaftártungnaafrétti. Lónin eru tvö. Mest er af smábleikju í lóninu en þar má einnig veiða stærri ránbleikjur og stöku urriða.

Blautulón eru fjölskylduvænn veiðistaður þar sem mikið af fiski er í vatninu og flestir sem þar veiða fá fisk. Hér má veiða eins mikið og hver vill.

Við Blautulón ertu umvafinn eldfjallalandslagi, svörtum söndum og mosagrónum breiðum.

Vissara er að vera á sæmilegum bíl, jeppa eða jepplingi að minnsta kosti.

Við óskum eftir að veiðimenn sem kíkja uppeftir sendi okkur smá skýrslu um bæði veiði og einnig viljum við gjarnan fá myndir frá handhöfum Veiðikortsins.

Hér er hægt að skoða nánari upplýsingar um svæðið >> smella hér <<http://veidikortid.is/ofaerur

Góða skemmtun í sumar!
Veiðikortið

Hítarvatn opnar næstu helgi. Vegurinn enn illfær!

Hítarvatn opnar ekki fyrr en næstu helgi og er vegurinn enn blautur og illfær.

Einhverjir veiðimenn hafa verið að laumast inn að vatni og þeir verið að lenda í vandræðum sökum þess að vegurinn er enn mjög blautur. Þegar blautir slóðar eru eknir fer það jafnan mjög illa með slóðana og umhverfisspjöll geta skapast.

Við viljum við minna menn á að ekki fara upp að Hítarvatni fyrr en búið er að opna veginn um næstu helgi!

Með kveðju,

Veiðikortið

Veiði hefst í Kleifarvatni 15. apríl!

Þrátt fyrir að jörð skelfi á Reykjanesinu og jarðskjálftamælar titri, þá hefst veiði í Kleifarvatni á morgun, 15. apríl.

Fyrstu dagar tímabilsins er jafnan eftirsóttir þar hjá þeim sem eru í urriðaleit, en vatnið er frægt fyrir sína vænu urriða. Það er svo ekki fyrr en það fer að hlýna að bleikjan fari að sýna sig.

Þetta er allt að fara í gang!

Góða skemmtun!

Með kveðju,

Veiðikortið

Ískalt upphaf veiðitímabilsins 2024!

Það var vægast sagt kalt um að lítast við Vífilsstaðavatn í morgun, en það var að mestu leyti ísilagt. Einnig var vindasamt þannig að þó svo það hefi bara verið -2° virkaði eins og það væri enn kaldara. Einhverjir veiðimenn tóku þó nokkur köst á þau vik sem voru íslaus.

Önnur vötn eru ísilögð enda mikið frost og vetrarharka verið um landið síðustu daga. Hringvegurinn er lokaður og nánast ófært á vegum á norðurlandi.

Við verðum því að standa þetta veðurfar af okkur og bíða eftir betri tíð.

Gleðilegt veiðitímabil!