Úlfljótsvatn – Vesturbakkinn
Staðsetning:
Úlfljótsvatn er í Grafningi, sunnan Þingvallavatns. Úlfljótsvatns er efsti hluti Sogsins, milli Írafoss- og Steingrímsstöðvar. Veiðisvæðið er vestari hluta vatnsins að undanskildu því landsvæði sem nær frá Fossárósum að Úlfljótsvatnsskirkju.
Leiðarlýsing og fjarlægð frá Reykjavík:
Um 65 km. akstur er frá Reykjavík ef farið er um Hellisheiði eða Þingvelli en 40 km. ef farin er svokölluð Nesjavallaleið.
Upplýsingar um vatnið:
Vatnið er bergvatn, enda afrennsli Þingvallavatns. Töluverður straumur er í vatninu þar sem gegnumrennsli er að meðaltali 90 þúsund lítrar á sekúndu. Vatnið er um 4 km2 að stærð og yfir 20 m. djúpt þar sem það er dýpst. Úlfljótsvatn stendur í 80 metra hæð yfir sjávarmáli en til samanburðar er Þingvallavatn í 100,5 metra hæð.
Rétt er að benda á heimasíðu Veiðifélagas Úlfljótsvatns, en hún er http://ulfljotsvatn.wordpress.com/ og má þar finna frekari upplýsingar um svæðið.
Veiðisvæðið:
Bandalag íslenskra skáta og Skógræktarfélag Íslands eiga jörðina Úlfljótsvatn en henni tilheyrir um helming vatnsins. Heimilt er að veiða í landi skátanna og skógræktarinnar. Veiðisvæðið nær í norður að landamerkjum við Steingrímsstöð og í suðri að landamerkjum við Írafoss. Merkingar aðgreina hvar má veiða. Á síðastliðnum árum gilti Veiðikortið fyrir landi Efri-Brúar, austantil við vatnið, en nú er sem fyrr segir veiðisvæðið umtalsvert stærra við vestari hluta vatnsins. Í Efra-Sogi eru viðkvæmar hrigningarstöðvar stórurriðans. Til að vernda þann stofn er öll veiði í árfarvegi Efra-Sogs bönnuð. Svæðið er vaktað með myndavélum og veiðiþjófar verða kærðir. Þá er minnt á að veiði við stíflumannvirki og stöðvarhús Landsvirkjunnar er bönnuð. Þau svæði eru einnig vöktuð með myndavélum og starfsmönnum Landsvirkjunar og veiðimönnum í Úlfljótsvatni. Hér er mynd af svæðinu; ATH. AÐ SVÆÐI 2 ER EKKI INN Í VEIÐIKORTINU.
Gisting:
Hægt er að kaupa gistinu á skipulögðu tjaldsvæði Skátanna, en þar er mjög góð aðstaða til útilegu. Frekari upplýsingar má finna á www.ulfljotsvatn.is , meðal annars hvað snertir margs konar afþreyingu á staðnum, s.s. bátaleigu og þess háttar.
Veiði:
Mest veiðist af bleikju, en einnig nokkur urriði. Algengasta stærð fiskanna er hálft til tvö pund, en veiði á stærri fiski hefur aukist hin síðari ár.
Daglegur veiðitími:
Veiðitími hefst kl. 7.00 og honum lýkur kl. 23.00
Tímabil:
Frá byrjun 1. maí og fram til 30. september.
Agn:
Heimilt er að veiða á flugu, spún og maðk. Bannað er að nota markríl, smurefni eða aðra beitu nefnd er hér að framan. Sé önnur beita notuð eða veitt utan svæðið er afli gerður upptækur og viðkomandi vísað af svæðinu.
Besti veiðitíminn:
Frá miðjum júní og fram í miðjan ágúst.
Annað:
Frábær dvalarstaður fyrir fjölskylduna að dvelja en margt er í boði á svæðinu fyrir alla meðlimi hennar. Nánari upplýsingar á www.ulfljotsvatn.is
Reglur:
Allir veiðimenn þurfa að tilkynna sig ÁÐUR EN FARIÐ ER TIL VEIÐA í þjónustuhúsi á tjaldsstæði. Skráningarbók er í aðalsal og þar er alltaf opið inn. Skrá þarf allan afla að lokinni veiði í veiðibók í þjónustuhúsi á tjaldsstæðinu eða með því að smella hér fyrir rafræna skráningu. Snyrtileg umgengni er skilyrði og bannað er að skilja eftir rusl við vatnið.
Allur akstur utan vega og slóða er stranglega bannaður og verður slíkt athæfi kært til lögreglu. Veiðikortshafar sem valda umhverfisspjöllum eru ábyrgir gagnvart landeiganda.
Veiðiskýrslur er einnig hægt að sækja á vef Veiðikortsins og prenta út. Ef veiðist fiskur, sem er merktur Veiðimálastofnun, ber að geta þess í veiðiskýrslu.
Ekki er heimilt að koma með eigin báta til veiða í Úlfljótsvatni nema í samráði við landeigendur á hverjum stað.
Börn yngri en 14 ára veiða frítt í fylgd með korthafa.
Nánari upplýsingar um svæðið má finna á heimasíðu Veiðifélags Úlfljótsvatns með því að smella hér.
{pgsimple id=6|caption=0|tsize=medium|tmax=20|imax=200|close=1}
{weather 9}