Aldrei eins mikið af urriða í þjóðgarðinum!

Veiðimaðurinn Cezary Fijalkowski hefur tekið ástfóstri við þjóðgarðssvæðið í Þingvallavatni. Hann hefur stundað þar urriðaveiðar til fjölda ára og segir að stofninn fari vaxandi með hverju ári. Hann segist aldrei hafa séð eins mikið af urriða þar og í ár og hefur hann veitt vel á þriðja hundrað urriða þar frá því í vor.  Það er samt ekkert sjálfgefið að menn skundi á Þingvöll og nái sér í fisk en hann hefur aflað sér mikillar þekkingar og lagt á sig mikla vinnu við að finna urriðann hverju sinni og auk þess að þróa með sér veiðiaðferðir sem virka við mismunandi aðstæður, en stundum þarf að veiða djúpt og stundum er fiskurinn í yfirborðinu. Einnig er mjög algengt að það sé enginn fiskur. Cezary hefur sennilega farið allt að hundrað ferðir á Þingvöll í sumar og ástæðan er sú að hann er með markmið í gangi. Hann ætlar sér að veiða stærri fisk – en hann stærsti fiskur úr vatninu er 103 cm!

Urriðatímabilið er best á vorin og síðan þegar hausta tekur. Yfir hásumarið fer urriðinn fjær landi. Þessi ágústmánuður hefur verið drjúgur og hefur hann fengið fjölda fiska núna í ágúst og í raun er þetta einn besti ágústmánuður sem hann man eftir. 

Það var fréttnæmt fyrir nokkrum dögum þegar Cezary skaust í vatnið ásamt syni sínum Adam Fijalkowski sem er aðeins 14 ára. Hann byrjaði á því að gera klárt fyrir soninn og setti undir hjá honum púpu til að hann gæti dundað sér í bleikjunni. Adam var varla byrjaður að kasta þegar hann kallar á föður sinn sem var enn að setja upp stöngina sína: "Fiskur! Það er fiskur!".  Það var enginn smá fiskur eins og sjá má að myndinni hér fyrir neðan, en hann var mældur 99 cm. 


Adam Fijalkowski með 99 cm urriða sem hann veiddi um dögunum.

 

 

 

 

 

 

 

Sléttuhlíðarvatn gefur vel!

Sléttuhlíðarvatn er eitt af þessum vötnum sem gefur jafnan mjög góða veiði enda mikill fiskur í vatninu. Það er staðsett á milli Hofsós og Siglufjarðar.

Sigmundur Elvar Rúnarsson 8 ára fór þangað ásamt föður sínum um helgina og fékk þar sinn fyrsta fiski eftir stutt stopp og veiðibakterían hjá þeim feðgum að lifna við.

Við hvetjum ferðalanga til að kíkja í vatnið þó ekki sé nema stutt stopp þegar verið er að ferðast um landið.  Mikið er af bæði bleikju og urriða í vatninu og klárlega eitt af skemmtilegri veiðivötnum í Veiðikortinu fyrir fjölskyldur.

Read more “Sléttuhlíðarvatn gefur vel!”

Vatnaveiðin komin á skrið

Einn besti tíminn í vatnaveiðinni er að nálgast. Þegar skordýralíf fer á fullt og gróður færist í fullan blóma þá fer silungur í vötnum landsins á mikla hreyfingu og færist nær landi þar sem jafnan má finna mestu fæðuna.

Nú þegar hefur tímabilið gengið vel það sem af er. Urriðaveiðin í Þingvallavatni hefur gengið vel og margir rígvænir fiska allt upp í 20 pundin hafa komið á land. Einnig voru veiðimenn að fá fallega urriða í Úlfljótsvatni og Kleifarvatni.

Read more “Vatnaveiðin komin á skrið”

Tafir á póstsendingum

Þeir sem panta kortið á netinu mega búast við því að afhending geti tekið frá 5-10 dögum eins og staðan er í dag en afhendingartími virðist vera nokkuð mismunandi milli hverfa.

Hægt er að sækja kortið til okkar á Rafstöðvarveg 14, en þá þarf að láta vita af því um leið og kortin eru pöntun þannig að þau fari ekki í póst.  

Með kveðju,

 

Veiðikortið

Fluguhnýtingar fyrir Elliðvatn

Eiður Kristjánsson fluguhnýtari og veiðimaður hefur verið iðinn við að veiða í vötnunum í nágrenni borgarinnar.  Hann er öflugur fluguhnýtari og hefur hér tekið saman leiðbeingar um hvernig má hnýta fjórar öflugar flugur sem virkar mjög vel í Elliðavatni sem og auðvitað víðar. Elliðavatn opnar fyrir veiðimönnum á morgun sumardaginn fyrsta þannig að það er tilvalið að nýta síðasta kvöld vetrar til að setjast við hnýtingar! Við þökkum Eiði fyrir þetta.

Read more “Fluguhnýtingar fyrir Elliðvatn”

Veiði hefst í Elliðavatni sumardaginn fyrsta!

 

Veiðisumarið hefst í Elliðavatni sumardaginn fyrsta

Elliðavatn sem er á mörkum Reykjavíkur og Kópavogs er eitt vinsælasta silungsveiðivatn á Íslandi. Þangað leggja leið sína þúsundir veiðimanna á öllum aldri ár hvert.  Síðustu sumur hafa verið góð og það er í raun magnað að hægt sé að komast í slíkar veiðilendur steinsnar frá ys og þys borgarinnar.

Á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 23. apríl hefst veiðin í Elliðavatni enn eitt árið. Vatnið breiðir út faðm sinn og tekur vel á móti yngri veiðimönnum sem hinum eldri. En Elliðavatn getur líka verið krefjandi veiðivatn og er oft kallað „háskóli fluguveiðimannsins“. Elliðavatn er oft gjöfult, ekki síst framan af veiðitímabilinu og það er enngin ástæða til annars en að láta sig hlakka til þess að njóta útiverunnar við vatnið.

Veiðikortið – sem er stoltur leigutaki og umsjónaraðili Elliðavatns – býður veiðimenn á öllum aldri hjartanlega velkoma til veiða í Elliðavatni í sumar og hvetur til þess að menn opni veiðisumarið í vatninu og haldi þannig með viðeigandi hætti upp á sumarkomuna; í Elliðavatni á sumardaginn fyrsta!

Veiðikortið fæst um allt land, á bensínstöðvum, í veiðibúðum auk þess sem hægt er að panta það hér á heimasíðunni veidikortid.is og fá það sent heim.

 

Gagnlegt er að skoða bæklinginn sem hann Geir Thorsteinsson gerði um Elliðavatnið:  << SMELLA HÉR >>