Þá er loksins farið að koma að því að nýtt veiðitímabil hefjist formlega. Veiðimenn eru sjálfsagt farnir að ókyrrast, sérstaklega þar sem vötnin á láglendi eru svo gott sem íslaus. Það er því ekki ólíklegt að það verði margt um manninn á sunnudaginn, sem er páskadagur. Væntanlega munu einhverjir vilja hressa sig við eftir páskaeggjaátið og viðra sig og renna fyrir silung.

Það má skoða nánar um opnunartíma vatnanna 2018 hér

Vinsælustu vorveiðivötnin miðað við þessi skilyrði sem nú eru uppi veðurlega séð, eru Vífilsstaðavatn, Gíslholtsvatn, vötnin í Svínadal (Geitabergsvatn, Þórisstaðavatn og Eyrarvatn), Hraunsfjörður og einnig er spurning hvernig staðan er á ísnum t.d. í Bauláravallavatni. 

Veiðimöguleikar í byrjun apríl
Almennt þar sem urriði er í vötnum eru fínar líkur á að krækja í fisk, en urriðinn fer í ætisleit strax og ísa leysir. Bleikjan sést yfirleitt lítið svona fyrstu dagana þó svo það sé alltaf séns í grunnum vötnum eins og Vífilsstaðavatni svo dæmi séu tekin. Góðar flugur til að prófa eru nettar straumflugur og að sjálfsögðu púpur bæði þyngdar og óþyngdar. 

Veðrið
Lofthitastigið spilar jafnan mikið inn á veiðimöguleika, en ef mjög kalt er í lofti eru líkur á því að fiskur sé lítið á hreyfingu. Ef hitastigið nær að stiga aðeins upp og við fáum rauðar tölur nokkrar daga í röð er líf við vötnin fljótt að kvikna og þá fer fiskur frekar af stað í ætisleit.  Langtímaspáin fyrir sunnudaginn er reyndar frekar köld en eins og spáin er í dag ættum við að fá hita en ekki frost á sunndaginn í kringum höfuðborgarsvæðið og á Snæfellsnesi. Frost verður væntanlega í öðrum landshlutum en sem betur fer getur spáin verið fljót að breytast og vonandi til batnaðar.

Við hvetjum veiðimenn til að fylgjast með veðurspáinni og vera undir það búnir kíkja í vötnin. Okkur þætti vænt um að fá sendar fréttir frá vötnunum til að geta miðlað þeim til annarra veiðimanna.

 


Veiðimenn að spá í spilin 1. apríl fyrir nokkrum árum við Vífilsstaðavatn.

 

Með veiðikveðju,

Veiðikortið

 

 

 

 

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Mikið af fiski í Hraunsfirði
Næsta frétt
Styttist í veiðitímabilið 2018!