Frekar rólegt hefur verið að urriðamiðum í Þingvallavatni í landi þjóðgarðsins frá því opnað var fyrir veiði þann 20. apríl s.l. Veðrið hefur ekki verið upp á marga fiska og því frekar fáir við veiðar og fáir fiskar sem komu á land fyrstu dagana. Síðustu dagar hafa þó verið ágætir og hafa veiðimenn vera að slíta upp einn og einn fisk.  

 

 

Við heyrðum í hollenskum veiðimanni sem hefur verið við veiðar meira og minna frá opnun en lítið sem ekkert var að gerast fyrstu 10 dagana. Í fyrradag og í gær fór urriðinn að sýna sig meira við bakkana og fékk þessi ágæti veiðimaður einn fisk frá opnun þar til í gær. Seinnipartinn í gær fékk hann svo tvo fallega fiska, sá fyrri veiddist um kl. 15.30 og var hann 85 sm langur. Um kvöldið fékk hann svo svakalega fallegan urriða sem mældist 91 sm langur og má ætla að hann sé yfir 20 pund! Við fáum myndir síðar af þessum fiskum.

Robert Nowak er búinn að vera duglegur síðustu daga og hefur hann og félagar fengið nokkra fallega fiska. Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá honum en þessir komu á land í Vatnskoti.

 

 


Robert Nowak með 88 sm urriðahæng sem hann fékk á mánudaginn og mældist 88 sm og 56 sm í ummál og 17 pund að þyngd. Urriðinn féll fyrir
Black Ghost Olive #6 og tók um halftíma að landa honum.

 


Þennan 72 sm urriða fékk Robert á sunnudaginn. 

 


Hér er Robert að sleppa stærri urriðanum, en sleppiskylda er á öllum veiddum urriða í þjóðgarðinum til 1. júní. 

Við þökkum Robert kærlega fyrir myndirnar og hvetjum veiðimenn til að senda okkur fréttir af vatnasvæðum Veiðikortsins.

Með veiðikveðju,

Veiðikortið

 

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Vodafone Vildarklúbbur
Næsta frétt
Þingvallavatn og Elliðavatn – veiði hefst á morgun!