Þingvallanefnd ákvað að breyta reglum um Þingvallavatn fyrir veiðitímabilið 2014 og opnaði það 20. apríl í staðinn fyrir 1. maí áður.  Einnig er rétt að benda á að sleppiskylda er á öllum veiddum urriða til og með 31. maí og á þessu tímabili má aðeins veiða með flugu.  Frá og með 1. júní er heimilt að veiða á flugu, maðk og spún.

Veiðin í vatninu fer ágætlega af stað þrátt fyrir kulda og höfum við frétta af nokkrum urriðum sem hafa komið á land og gott er að vita af því að þeir fiskar eru ennþá í vatninu, því þeim var sleppt aftur eins og nýjar reglur við vatnið gera ráð fyrir.

Á mánudagskvöldið, 21. apríl sem var annar í páskum, fékk Emil Gústafsson fallegan urriða á fluguna Black Ghost.  Fiskurinn var mældur 65 cm og tók hann vel í.


Fallegur urriði sem mældist 65 cm og tók fluguna Black Ghost.

Í gærkvöldi, 22. apríl fór Sigurður Hafsteinsson á Þingvelli og fékk hann 72cm urriða.  


Sigurður Hafsteinsson með glæsilegan Þingvallaurriða eins og þeir gerast bestir!  72cm fiskur.

Davíð og Golíat?
Einnig höfum við heyrt af fleiri fiskum og ævintýrum, en Logi Már Kvaran frá SVH lenti í miklu ævintýri þegar hann setti í svakalegt tröll sem hann réð ekkert við.  Fiskurinn rauk út og það söng í hjólinu þangað til allt stoppaði og fiskurinn sleit þegar hann hafði togað út alla undirlínuna!  Það er því eins gott að vera við öllu búinn þegar egnt er fyrir stórurriðanum á Þingvöllum, því það er alltaf möguleiki á því að setja í slíkan fisk sem hefðbundnar silungastangir ráð ekkert við!

Kafarar fundu sannkallaðan risafisk.
Einnig fréttum við af því að kafarar sem voru á Þingvöllum hafi fundið dauðan urriða sem var hvorki meira né minna en 120cm.  Má ætla að sá fiskur hafi hreinlega dáið úr elli og að hann hafi verið á bilinu 30-35 pund.

 

Kvikasilfur og urriðinn úr Þingvallavatni.
Rétt er einnig að benda á að urriði úr Þingvallavatni safnar upp kvikasilfri eftir því sem hann stækkar og eldist og viljum við því benda veiðimönnum á að stærri urriði en 5-6 pund hendar alls ekki til matar. Sérstaklega er varað við því að þungaðar konur neyti matar sem inniheldur kvikasilfur yfir viðmiðunarmörkum Matís.  Ástæðan fyrir uppsöfnun kvikasilfurs í stærri urriðunum er sú að þeir eru efstir í fæðukeðjun og því eykst kvikasilfursmagnið í honum eftir því sem hann stækkar.  Enn er þó beðið eftir ítarlegum rannsóknum á uppruna kvikasilfurs í Þingvallavatni.  Einnig ber að nefna að bannað er að selja fisk sem inniheldur meira magn en 0,5 mg/kg samkvæmt íslenskum og evrópskum reglum þannig að þessi fiskur á ekki að finnast hjá fisksölum.  Ef menn verða varir við slíkt er rétt að tilkynna það til Matvælastofnunar.  Skýrslu um málið má lesa hér.

Veðurspáin fyrir næstu daga er nokkuð góð og væntanlega eigum við eftir að fá fleiri fréttir á næstu dögum og hvetjum fluguveiðimenn til að vera duglega að stunda vatnið meðan urriðinn er á sveimi.

Með veiðikveðju,

Veiðikortið

 

 

 

 

 

 

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Elliðavatn verður opnað á morgun!
Næsta frétt
Þingvallavatn opnar á morgun, 20. apríl