10. júl. 2007
 
Syðridalsvatn í ágúst…..
Okkur barst skemmtileg veiðisaga frá Þorleifi Pálssyni sem ég leyfi mér að birta hér, en hún átti sér stað í Syðridalsvatni við Bolungavík í ágúst 2004.
"Það er búinn að vera heitur dagur á skrifstofunni og tími til kominn að koma sér út í góðaveðrið. Orðrómur er um að síðustu daga hafi sést töluvert af bleikju í Miðdalsvatni í Bolungarvík, en ekki gengið vel að fá hana til að taka í þessum hita sem nú er og þessu logni dag eftir dag. Eftir að hafa farið heim og sótt flugustöngina 

og t.h. búnað ók ég út í Bolungarvík og fram að Hóli, sveitabæ við innanvert Miðdalsvatn. Gekk frá veiðileyfi hjá Jóhanni bónda og rölti niður að vatni. Sumarið hefur verið heitt og þurt og sjáanlega lækkað nokkuð í vatninu miðað við það sem venja er. Innri hluti vatnsins er mjög grunnur allt að 40-50 metra fram frá landi, nær vatnið manni vart í hné við þessar aðstæður. Upp á þessar grynningar kemur bleikjan einagt síðla dags eða á kvöldin og þá oft í miklu magni. Ég hef tekið eftir að hún heldur sig oft í tveimur torfum og sannreynt að í annari er staðbundinn bleikjustofn, en í hinni er sjóbleikjan, sem oft hefur göngu sína í vatnið um og upp úr miðjum júlí. Ekki var því láni að fagna að bleikjan væri komin upp á grunnið er ég óð þar fram um kvöldmatarleitið. Því fór ég fljótlega út að svonefndri Selá, sem rennur í vatnið austanvert og er í raun aðeins góður lækur. Ég kastaði nokkrum sinnum á þessu svæði og var aðeins var við smábleikju, sem allar fengu fararleyfi aftur í vatnið. Þarna var félagsskapur góður ein 20-30 hross fylgdust vel með þessum manni er baðaði út öllum öngum án þess að sjáanlegur væri nokkur tilgangur með því. 
Eftir að hafa notið þessa félagsskapar rölti ég aftur til baka og var hæst í mér að koma mér bara heim aftur. Er ég kom að enda vatnsins mætti ég öldruðum veiðimanni og tókum við tal saman. Hann sagðist vera gestkomandi í Bolungarvík og færi oft hér frameftir að leika sér með flugustöngina. Hann hafði verið hér um morguninn og séð þá nokkuð af bleikju í vatninu, en hún væri ósköp treg til að taka. Hins vegar væri eitthvað af bleikjunni komið upp í aðar ána sem rennur í vatnið innanvert. Einhver hafið fengið þokkalega veiði þar kvöldið áður. Við fórum að tala um hvað helst væri að bjóða bleikjunni og komumst að raun um að smáar flugur, púpur og kúluhausar væri sennilega það líklegasta. Ég var vel aflögufær af þessu agni og deildi hluta þess með þessum öldungi. Þetta varð til þess að ég frestaði heimferð minni og röldi í átt að ánni en sá gamli fór aftur á móti niður að vatni. Ég stoppaði við veiðistað sem er stutt fyrir framan litla brú yfir ána og gerði mig klárann til að veiða andstreymis. Ég hnýtti á dögunum eftirlíkingu af vatnsketti út latex setti á gripinn lappir og litaði með tússpenna. Þessa framleiðslu mína hnýtti ég nú á tauminn gekk frá tökuvaranum og óð út í miðja á nokkuð fyrir neðan brotið neðst við hylinn. Þegar ég var kominn út í ána hugsaði ég með mér að betra hefði nú verið að skoða hvort einhver fiskur væri í hylnum áður en ég færi að kasta, en nennti ekki til baka. Ekki þarf að hafa mörg orð um það sem nú gerðist. Fiskur var á í fyrsta kasti og öðru og þriðja og svo framvegis. Hylurinn var bókstaflega fullur af bleikju, bæði sjóbleikju og vatnableikju og landaði ég þarna um þrjátíu fiskum á rúmun einum og hálfum tíma og misti nokkra þar að auki. Ég sleppti öllum fiski er ekki náði góðu pundi og allri vatnableikju er ekki var þeim mun pattaralegri. Í háfinn raðaði ég að lokum einum sautján frábærum matfiskum. Á leiðinni niður að bíl mætti ég þeim gamla aftur. Hann hafði einnig orðið var þótt ekki hafi hann lent í ævintýri eins og ég. Um leið og við kvöddumst rétti ég honum eintök af vatnskettinum og varð honum að orði að best væri að bleita þá í fyrramálið. 
Hvernig hefði kvöldið farið ef hinn aldraði veiðimaður hefði ekki komið niður að vatni í þann mund er ég ætlaði heim ? Var hann þessa heims eða ??????? 
 
Þorleifur Pálsson. "
 
Við þökkum Þorleifi fyrir þessa skemmtilegu veiðisögu og hvetjum fleiri veiðimenn til að senda okkur veiðisögur frá vatnasvæðum Veiðikortsins sem og myndir í myndabankann.

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Þingvellir – Fallegur morgunn!
Næsta frétt
Veiðiferð í Þveit og Mjóavatn í Breiðdal.