Fluguveiði í stöðuvatni
 
Fluguveiði í stöðuvatni er að sumu leyti erfiðari en í straumvatni. Straumurinn hjálpar okkur stundum að rétta línurnar og bera fluguna eðlilega yfir. Í straumvatni er fiskurinn yfirleitt staðbundin og vatnið færir honum fæðuna. Í stöðuvatni er fiskurinn á sveimi í leit að æti. Þannig er augljóst að veiðimaður verður  hafa fyrir því að finna fiskinn í vatninu. Fiskurinn er í leit að æti en hann hefur einnig þörf fyrir öryggi. Hann heldur sig þannig oft við kanta þar sem grynningar eru með æti annars vegar og hins vegar þar sem dýpið er skammt undan. Þegar komið er að vatninu er gott að horfa og hlusta og flýta sér ekki. Ef fiskur er fyrir þá sést það fljótt eða heyrist. Sum vötn hafa svokallaðar kuðungableikjur eða bobbableikjur (Þingvallavatn) sem eru niður við botn og sýna sig lítt.
 
Stöng nr. 4 – 5 (9 fet er góð lengd) er hæfileg fyrir silung en auðvitað notum við það sem er til. Það er skemmtilegra að eiga við silung með tækjum við hæfi fremur en nota tæki fyrir laxa.  Hraðar léttar stangir henta vel en stangarval er einstaklingasbundið og nánast trúarbrögð. Í grunnum vötnum er flotlína gott val sérlega ef silungurinn er að sýna sig. Ef ekkert gerist þá má lengja aðeins í taumnum og setja þyngri flugu undir og veiða dýpra. Við þurfum því að finna bæði staðinn og einnig dýpið sem fiskurinn heldur sig á. “Intermediate” línur eru mikið notaðar en þær sökkva hægt og rólega en lítið þegar þær eru dregnar. Með þeim má veiða rétt yfir botni. Sökklínur eru lítið gagnlegar í vatnaveiði. Núna eru á markaði flot og “intermediate” línur sem eru með glærum enda eða alveg glærar. Þær eru prýðilegur kostur við vatnaveiði.
 
Taumur á flugulínu er venjulega settur upp í versluninni þaðan sem línan kom og er frammjókkandi. Hann er kringum 9 fet sem er hæfileg lengd. Þegar hann styttist við fluguskiptingar þá er hnýtt taumefni framan við og þannig höldum við lengdinni eða lengjum eftir vali. Taumefni í silungsveiði er nægjanlegt 6 pund en grennra er oft notað sérlega við óþekkan fisk. Ég nota fremur stíft taumefni því ég vil að flugan og línan og taumurinn séu eins bein lína og kostur er þegar flugan kemur í vatnið. Fiskur tekur oft mjög fljótt og ef allt er í bendu þá er ekki möguleiki að bregða nægilega skjótt við honum. Það er ekkert úrslitaatriði að vera með frammjókkandi tauma sem eru dýrir. Einfalt er að nota taumefni af mismunadi sverleika og hanna eigin tauma.
 
Flugur í silungsveiði eru nær óteljandi en yfirleitt veiðist best á dökkleitar flugur (svartar, brúnar, grænar). Það er algerlega nægjanlegt að vera með 5-6 liti. Stærð er mismunandi en yfirleitt er notað frá nr. 10 (Þingvallavatn) í nr. 18 (Elliðavatn). Þyngd flugunnar er stórt atriði þar sem við viljum helst hafa hana þar sem fiskurinn er. Kúluhausar eru ómissandi til að koma flugum niður. Þurrflugur eru góður kostur ef uppítökur eru miklar. Litlar svartar eru ágætar. Ef flugu hefur verið kastað nokkrum sinnum án árangurs þá er bara að skifta um lit og skifta um stærð.
 
Góða skemmtun!   Jónas Magnússon

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Bæklingur Veiðikortsins 2014 kominn í vefútgáfu
Næsta frétt
Fishing in Iceland