Nú er að renna upp sá tími sem er hvað skemmtilegastur í ísdorginu.  Við finnum stóran mun á birtu milli daga enda er daginn tekið að lengja.  Þá hefst draumatími ísdorgveiðimannsins.

Ef ís helst traustur þá er ekkert því til fyrirstöðu að skella sér í ísdorg.  Það þarf í raun ekki merkilegan útbúnað fyrir þá sem vilja prófa.  Öllu jöfnu er auðsótt að fá leyfi hjá landeigendum sé ís traustur.

Við vorum í sambandi við Pétur Jónsson sem stundar ísdorgið reglulega og setti hann saman smá pistil um dorgveiði handa okkur:

 
"Fyrir þá sem hafa áhuga á að prófa sig áfram í dorgveiðinni, þá er þetta í sjálfu sér ekki mjög flókið og krefst ekki mikils búnaðar, a.m.k. ekki svona til að byrja með.
Helsti búnaðurinn sem þarf er ísbor, ausa með götum til að moka upp úr holunni þegar búið er að bora, lítil veiðistöng eða dorgstöng og svo þarf auðvitað beitu.
Hægt er að fá þennan útbúnað í flestum veiðivöruverslunum.  Auðvitað má svo flækja þetta og bæta við meiri og sérhæfðari búðandi eins og letingjum, snjóþotu, broddum á skóna, dýpptarmæli, myndavél til að skoða ofan í holuna, bensínbor og ýmislegt annað sem hægt að telja til sem gerir sportið skemmtilegra með tímanum.
 
Gott er að vera með stóla eða dýnu til að liggja á. Einnig er nauðsynlegt að klæða sig vel!
 

Góður útbúnaður er lykilatriði í dorgveiði.
 
Vill einnig benda mönnum á að hugsa sérstaklega vel að örygginu, t.d. hafa ísbrodda um hálsinn þannig að ef þú ferð niður um vök geturðu kraflað þig upp aftur.  Verið ávallt með band eða línu og verið alltaf tveir eða tvö saman.  Við erum með stóra þotu með löngu bandi með okkur sem hægt er að ýta út í vök ef þörf er á.  Einnig eru til sérsakir kuldagallar sem hafa flot eiginleika en ekki sjálfgefið að þeir fáist hér á landi.
 

Pétur með nokkrar bleikjur úr Langavatni
 
Það er hægt að dorga í öllum vötnum sem frjósa og þarf ísinn að vera a.m.k 10-15cm á þykkt.  
Skemmtilegast er að dorga undir ís sem er glær því þá sér maður auðveldlega í gegn.  Einnig er mjög skemmtilegt að horfa ofan í holu og sjá fiskinn koma og skoða beituna og náttúrulega líka þegar hann tekur!  Þetta er auðvelt þegar dýpið er ekki mikið og skyggnið gott undir ísnum.  
Ekki leyfa þó allir landeigendur að dorgað sé í vötnunum þeirra, þó svo ég skilji ekki rök þeirra enda er þetta sport eins og hvað annað þar sem hver tekur ábyrgð á sjálfum sér og varla er ásókn það mikil að hún hafi neikvæð áhrif á fiskistofna.
 

Ískaffi á ísnum!
 
Við notum ýmsa beitu.  Rækja og baunir eru vinsælar, en einnig er hægt að nota maðk, makríl og spún.  Hvítmaðkur er sérlega góður ef maður kemst í hann.  Mér hefur fundist best að hafa litla plötu og síðan smá girnisbút sem er um 20-30cm neðan í henni og þá krók með beitu.  Platan er eins og spúnn en meira sporöskjulöguð.  Það er mjög misjafnt hvað fiskurinn tekur hverju sinni eins og gengur og gerist, þannig að oft er gott að horfa í holuna til að fylgjast með hvort að fiskurinn sýni beitunni áhuga.
 

Hér er dæmi um letingja.  Þegar fiskur tekur þá lyftist fáninn upp.
 
Þegar fiskur tekur er best að koma honum eins fljótt og hægt er uppúr holunni til að barningurinn fæli ekki annan fisk burtu.  Að mínu mati er fiskurinn sem maður veiðir í gegnum vök sá allra besti sem ég hef smakkað.
 
Gott að vera með þotu til að bera dótið og aflann!
 
Nokkrir silungar í kælingu!
 
Við höfum farið nokkuð víða undanfarin ár til að dorga og ég held að þetta sé eitthvað sem fólk ætti að prófa til að upplifa eitthvað nýtt.  Ég veit að það er töluvert dorgað fyrir norðan, en ég hef dorgað t.d. í Kringluvatni, Vestmannsvatni, Másvatni, Mývatni og fleiri stöðum.  Einnig höfum við farið á Arnarvatnsheiði, Skagaheiði, Hítarvatn, Langavatn í Borgarfirði og vötn á vesturlandi.  Ég hef ekki fengið heimild til að veiða í Djúpavatni á Reykjanesi og Veiðivötnum með þeim rökum að veiðiréttareigendur vilja ekki að menn séu að þvælæst á vötnunum án eftirlits.  Ég vil hvetja þá aðila til að endurskoða það þar sem dorgveiði er hollt og skemmtilegt útisport sem ætti að vera leyft hvar sem er.
 
Svo er bara að skella sér af stað og best er að fara þegar daginn lengir og veðurspá er góð 🙂
 
Pétur Jónsson"
 
 

Hér má sjá myndband sem Pétur setti inn á Facebook síðu okkar:   

 
Við þökkum Pétri kærlega fyrir pistilinn og myndirnar og hvetjum veiðimenn til að njóta tímans næstu vikurnar með hækkandi sól.
 
Með veiðikveðju,
Veiðikortið

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
RISE Fluguveiði kvikmyndahátíð 2014
Næsta frétt
Ljósið