Kleifarvatnið kemust sterkt inn í opnun, en vatnið opnaði 15. apríl, eða tveim vikum fyrr en vanalega.  Atli Sigurðsson fékk 3 urriða um 3 pundin í gær, 17. apríl og Nökkvi Svavars og sonur hans fengu einnig ánægjulega veiði.  Sjálfsagt hafa fleiri gert fína veiði án þess að við höfum fengið upplýsingar af því.  Veðrið í dag var greinilega mjög sérstakt, en það var bæði sól, rok, rigning, logn, snjór og slydda.

 
S.s. Nökkvi Svavars fór með syni sínum, Svavari Lárusi, í Kleifarvatnið í dag.  Ferðin hefur sjálfsagt verið ógleymanleg fyrir ungan veiðimann þar sem Svavar fékk glæsilega veiði.
Hér er frásögnin beint frá Nökkva: "Við feðgar skelltum okkur í fyrsta skipti okkar í Kleifarvatnið enda opnaði það 15. apríl síðastliðinn.  Það var sól, rok, rigning, logn, snjór, slydda og allt þar á milli en samt hið besta veður.  Þegar ég ætlaði að setja saman flugustöngina komst ég að því að fluguhjólið var heima þannig að kaststöngin var brúkuð.  Júníorinn byrjaði með flotholt og rækju en fljótlega skiptum við yfir í sökku og rækju.  Ekki leið á löngu þangað til eins punda urriði var kominn á land við mikinn fögnuð.  Aftur var kastað og eftir 10 mínútur vorum við báðir með fisk en þeir sluppu báðir, gríðarleg vonbrigði hjá þeim stutta.  Þá var bara að reyna aftur og viti menn, júníorinn landaði 4 punda og 55cm bleikju.  Kleifarvatn verður heimsótt fljótlega aftur, ekki spurning.  Við vissum reyndar ekki fyrr en heim var komið að rækja er ekki löglegt agn í Kleifarvatni þannig að við pössum okkur næst."
 
Svavar Lárus í fiski – 18. apríl 2010.
 
Svavar Lárus búinn að landa glæsilegri bleikju 55cm og 4 pund 18. apríl 2010 Mynd Nökkvi Svavars
 
Þarna má sjá hvað urriðinn sem var um 1 pund er lítill í samanburði við bleikjuna.
 
Við þökkum Nökkva fyrir myndirnar en einnig viljum við benda á heimasíðuna www.123.is/conrad þar sem hægt er að finna skemmtilegar fréttir frá veiðitúrum þeirra félaganna í Conrad.
Við Vífilsstaðavatn voru menn að veiða um helgina og eru menn að slíta upp eina og eina bleikju og virðist sem meðalþyngd fiskanna þar fari vaxandi.
Við Meðalfellsvatn var margt um manning í dag og virðist sem flestir séu að veiða ofan við þar sem rennur í Bugðu, en fín veiði hefur verið í vatninu síðustu daga.  Við viljum beina þeim tilmælum til veiðimanna að sleppa niðurgöngulaxi þar sem hann er til einskis nýtur og því betra að fá hann tvíefldan tilbaka úr sjó seinna.  Einnig viljum við benda á að í Meðalfellsvatni er lögleg beita fluga, maðkur og spónn.
  
Með bestu kveðju,
Veiðikortið

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Nú er sumarið komið!
Næsta frétt
Meira frá Meðalfellsvatni