Okkur hafa borist fréttir héðan og þaðan af vatnasvæðum Veiðikortsins.
Bleikjan virðist vera komin í Hraunsfjörð og vekur það upp mikla gleði hjá þeim sem stunda lónið og hafa verið að bíða eftir bleikjunni.  Einnig hefur lax sést stökkva í lóninu.  Ætla má að margir skelli sér í Hraunsfjörðinn um helgina og við bíðum spenntir eftir frekari fréttum og myndum þaðan.  

Í Þingvallavatni er bleikjuveiðin aðeins að aukast og menn hafa verið að fá einn og einn urriða síðustu daga og vikur.  Enn er þó eitthvað í að bleikjuveiðin komist á fullt.  Þeir veiðimenn sem hafa verið að fá bleikjur hafa verið að fá mjög stórar og flottar bleikjur. 
 
Alltaf gaman fá myndir af ungum veiðimönnum, og hér er Bernhard Snær Petersen, 6 ára, er hér með 53cm boltableikju sem hann veiddi sjálfur og landaði. Bleikjan var hnöttótt eins og sjá má á myndinni og í maga hennar fannst meðal annars fimm hornsíli, kuðunga, lirfur og tvo hraunmola sem vor á stærð við krónupening! 
 
Hér er Örn Guðmundsson með eina stórglæsilega bleikju sem hann fékk á Þingvöllum í síðustu viku.  Hún var um fimm pund!
 
Hér má sjá veiðimenn í kröppum dansi með fallegann urriða sem þeir veiddu í þjóðgarðinum í síðustu viku.
 
Á spjallinu hér má sjá að veiðimaður sem lagði leið sína í Þveit við Höfn í Hornafirði veiddi vel þar eða um 30 stk.  Einnig hafa menn verið að veiða í Þórisstaðavatni og víðar. 
Þess má geta að Hítarvatn opnar á laugardaginn, en þar verður sjálfsagt margt um manninn og nauðsynlegt er að kanna áður en farið hvort það sé fullbókað, en í Hítarvatni er stangarkvóti og er nokkuð algengt að það sé fullbókað fyrstu helgina.  Þeir sem ætla sér að leigja hús þar í sumar er bent á að panta með góðum fyrirvara hjá Finnboga Leifssyni eða Erlu á bænum Hítardal.
Rétt er að ítreka að Veiðikortið hefur hafið samstarfs við www.veidibok.is um skráningu á afla og hvetjum við veiðimenn til að notfæra sér þann möguleika.  Veiðibók.is er snilldarlausn til að halda utan um veiðiferðir sumarsins sem og að setja inn myndir og upplýsingar.
 
Einnig viljum við hvetja veiðimenn til að fylgjast með blogginu hans Gústafs Gústafssonar í sumar, en hann í keppni við sjálfan sig um að veiða í 50 daga sumarið 2010.  Smellið hér til að skoða bloggið hans.
 
Nauðsynlegt er líka að minna menn á að ganga snyrtilega um veiðisvæðin og reglan á að vera sú að skilja ávallt betur við svæðið þegar farið er.  Ef menn ganga að rusli, girnisspottum eða öðru sem aðrir veiðimenn hafa jafnvel skilið óviljandi eftir, þá eru menn beðnir um að kippa því upp. 
 
Endilega sendið okkur veiðifréttir og myndir á netfangið veidikortid@veidikortid.is  – en innsendar myndir er hægt að skoða í myndaalbúmi okkar hér á vefnum.
 
Góða veiðihelgi!
Veiðikortið
 

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Héðan og þaðan
Næsta frétt
Veiðikortið í samstarf við Veidibok.is