Það hefur verið frábært veður síðustu vikur og margir hafa stundað vötnin að kappi enda fátt notarlegra en að slaka á út í náttúrunni með stöng í hönd.  Flest vötnin hafa verið að gefa vel og veiðimenn ánægðir.
Jóhanna Margrét Oddsdóttir, 4 ára, fór með föður sínum Oddi Þráinssyni til veiða í Meðalfellsvatni 23. júní.  Hún fékk 8 urriða á maðk og er væntanlega komin með veiðidellu af háu stigi eftir ferðina

.  
Öflug veiðidama og veiðidressið allt í stíl!
 
Jóhanna með fallegan urriða úr Meðalfellsvatni.
Í Þingvallavatni iðar allt af bleikju auk þess sem einn og einn urriði er ennþá að sýna sig.  Ragnar Örn Davíðsson fór ásamt félaga sínum 25. júní í vatnið og fengu þeir 6 fiska.  Þrjár murtur, 2 bleikjur 1 og 1 1/2 pund auk þess sem þeir fengu þennan fallega urriða sem vóg um 5 pund.
 
Glæsilegur urriði sem Ragnar Örn og félagi fengu á Þingvöllum 25. júní sl. 
Magnús Hafliðason fór í Þingvallavatniði 30. júní.  Lengi vel varð hann ekki var við fisk en hann ákvað að færa sig inn í Ólafsdrátt til að nota síðasta séns áður en sá veiðistaður lokar, þar sem bannað er að veiða þar frá og með 1. júlí út af hrygningu bleikjunnar.  Þar var nóg af fiski og hann landaði 15 bleikjum á afbrigði af Ölmu Rún.
 
Bleikjurnar sem Magnús Hafliðason fékk á Þingvöllum 30. júní á Ölmu Rún afbrigði.
 
Hér má sjá mynd af flugunni sem Magnús fékk bleikjurnar á.
 
Í Sléttuhlíðarvatni er jafnan mikið líf og vatnið hentar sérlega vel fyrir alla aldurshópa.   Benóný Valur Jakobsson átti leið þar um og fékk þessa fínu urriða þar á skömmum tíma.  Vatnið er mitt á milli Siglufjarðar og Hofós, þannig að þeir sem eru á flakki um Tröllaskagann ættu að kíkja við í Sléttuhlíðinni.
 
Skagaheiðin hefur verið að gefa mjög vel í sumar og hafa veiðimenn sem hafa farið þangað jafnan verið að fá fína veiði.  Tommi í Veiðiportinu fór ásamt félögum sínum á heiðina.  Þeir voru tveir sem veiddu á flugu og tveir sem veiddu á beitu.  Saman lönduðu þeim um 160 fiskum.  
 
Tommi og félagar með hluta af aflanum sem þeir fengu á Skagaheiðinni.
 
Í Hópinu hefur verið frekar rólegt síðustu daga, en við heyrðum í vönum veiðimanni sem hefur stundað vatnið í áratugi.  Svo virðist sem lítið af bleikju sé gengin í vatnið en vonandi fer fiskur að láta sjá sig þar í meira mæli á næstu dögum.
Mikið af sjóbleikju hefur verið að veiðast í Hraunsfirði en rétt er að benda á að það fæst varla betri matfiskur en nýgengin sjóbleikja.
Hítarvatn hefur verið að gefa sæmilega síðustu daga.  Bendum veiðimönnum á að hægt er að leigja aðstöðu í fínu gangnamannahúsi við útfall vatnsins.  Til að panta húsið þarf að hafa samband við Finnboga og Erlu á bænum Hítardal, þar sem veiðimenn þurfa jafnframt að skrá sig áður en þeir hefja veiðar.
Við viljum hvetja veiðimenn til að ganga vel um vatnasvæðin og ekki skila eftir sig rusl út í náttúrunni.  Berum virðingu fyrir náttúrunni og höfum ávallt með okkur poka til að taka upp rusl sem einhver kynni að hafa gleymt að taka með sér.
 
Með veiðikveðju,
Veiðikortið
 
 

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Ævintýri við Þingvallavatn – 17 punda urriði á fjarka!
Næsta frétt
Héðan og þaðan – vatnaveislan heldur áfram