Það er greinilegt að margir eru að ferðast innanlands í sumar.  Fleiri veiðimenn hafa a.m.k. heimsótt vötnin innan Veiðikortsins miðað við sama tíma í fyrra, a.m.k. miðað við tilfinningu veiðiréttareigenda. 
Þingvallavatnið hefur verið þétt setið og menn eru að fá fínar bleikjur, þrátt fyrir að murtan sé mikið á ferðinni.   Ef menn eru á bleikjuslóð og verða einungis varir við murtu getur verið ágætt að reyna að veiða neðar, þ.e.a.s. að láta fluguna eða agnið sökkvar dýpra.  Þá eru jafnan meiri líkur á að fá stærri kuðungableikjur.

Falleg bleikja úr Þingvallavatni frá síðasta sumri.
 
Í Sléttuhlíðarvatni hafa menn verið að fá fína veiði.  Einn Veiðikortshafi skaust þangað í gær og fékk á skömmum tíma um 15 fiska, mest allt urriða.  Hér fyrir neðan má sjá mynd af fiskunum.
Mynd af urriðum úr Sléttuhlíðarvatni.
 
Hópið hefur verið að gefa.  Veiðikortshafi sem var þar að veiðum þann 18. júlí s.l. fékk t.d. tvo urriða, annan 2 kg og hinn 0,5 kg. 
Margir hafa lagt leið sína í Haugatjarnir, en þar sem mikið af fiski og gott aðgengi.  Tjarnirnar henta sérstaklega vel fyrir fjölskyldur, þar sem aðgengið er mjög gott og auðvelt fyrir börnin að setja í fiska.  Hvetjum menn til að kíkja þar við ef þeir eru á leiðinni austur á firði. 
Í Syðridalsvatni fyrir vestan hefur verið talsverð umferð, enda hafa óvenju margir ferðalangar verið á ferðinni þar sem og um allt land.  Mikið af sjóbirtingi hefur verið við ósinn og má ætla að hann muni ganga upp í vatnið þegar líða fer á sumarið.  Bleikjan hefur verið að sýna sig og er veiðin ágæt.
Hraunsfjörður er dottinn í gang og hafa menn ferið að fá drjúga veiði þar upp á síðkastið.  Stundum hefur fjörðurinn kraumað af bleikju og veiðimenn jafnvel orðið varir við hana synda á milli fóta sér ef staðir er út í vatninu.  Dæmi eru um að menn hafi verið að fá yfir 50 fiska í tveggja daga túr á flugu.  Aðallega hafa menn verið að veiða inn í botni.  Einnig hefur sést þar sem veiðiþjófa sem stunda að húkka lax fyrir neða stíflu og viljum við benda mönnum á að slíkt er stranglega bannað og viljum við hvetja veiðimenn til að hringja í lögregluna sjái menn veiðiþjófa stunda slíka iðju.
 
Fallegt inn í botni Hraunsfjarðar.
Á Skagaheiði er búið að vera margt um manninn í sumar og hefur veiðin verið með ágætum.  
Gaman væri ef veiðimenn gætu sent okkur myndir frá veiðitúrum sumarsins til að deila með korthöfum. Netfangið er veidikortid@veidikortid.is
Með kveðju,
Veiðikortið

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Helgarferð á Skagaheiðina
Næsta frétt
Enn veiðast fallegir urriðar!