Urriði með mús í maga!
Veiðimaðurinn Gísli P skellti sér í Kleifarvatnið fyrir fáeinum dögum. Þar fékk hann um þriggja punda urriða sem honum þótti nú ekki mjög þykkur á kviðinn eða hreinlega frekar mjósleginn.
Þegar heim var komið opnaði hann fiskinn og kannaði Gísli hvað væri í maga hans. Þá kom í ljós að þessi ca. 3 punda urriði þessi hafði gleypt hagamús í heilu lagi eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Samkvæmt heimildum eiga hagamýs það til að synda í flæðamáli vatna og eru því auðveld bráð urriða sem leitar upp á grunnið í ætisleit. Algengar er þó að mýs lendi í kjafti urriða í ám og lækjum. Mörg dæmi eru t.d. um að urriði í Laxá í Mývatnssveit hafi verið með mús í maga.