Á sumardaginn fyrsta hefst veiðitímabilið í Elliðavatni. Af því tilefni bjóða Skógræktarfélag Reykjavíkur, Veiðifélag Elliðavatns og Veiðikortið til veiðigleði kl. 10-14 fimmtudaginn 25. apríl við Elliðavatnsbæinn.
Boðið verður upp á leiðbeiningar og góð ráð um vatnaveiði. Caddisbræðurnir Hrafn og Ólafur Ágúst ásamt Ólafi Tómasi í Dagbók Urriða, sem saman standa að Tökustuði (tokustud.is), verða á staðnum. Starfsmenn Skógræktarfélags Reykjavíkur verða á staðnum og kynna félagið. Hressing í boði í tilefni dagsins. Öll velkomin og frítt að veiða í vatninu.
Dagskrá:
- Kl. 10–14: Aðstoð við veiðimenn, leiðbeiningar og góð ráð er varða veiði í Elliðavatni.
- Kl. 11: Kynning frá Tökustuði (Caddisbræður og Ólafur Tómas) – örnámskeið og fyrirlestur í Elliðavatnsbænum um vatnaveiði með áherslu á Elliðavatn.
Veiðimenn og unnendur Elliðavatns eru hvattir til að mæta og fagna komu veiðisumarsins. Þetta er einnig kjörið tækifæri fyrir nýliða til að kynna sér veiði í Elliðavatni. Veiðimenn geta keypt Veiðikortið á staðnum.
Um veiði í Elliðavatni
Elliðavatn er vinsælasta veiðivatn höfuðborgarsvæðisins og afar gjöfult. Veiðitímabilið hefst á sumardaginn fyrsta og lýkur 15. september og er daglegur veiðitími frá kl. 7:00 -24:00. Vatnið er í rúmlega 70 m hæð yfir sjávarmáli og um 1,8 km2 að flatarmáli, mesta dýpi er rúmir 2 m en meðaldýpi um 1 m. Í Elliðavatnið renna Bugða og Suðurá. Hólmsá heitir áin nokkru ofar, áður en hún skiptist í Bugðu og Suðurá. Í vatninu eru bleikja, urriði, lax og stöku sjóbirtingur. Bleikjan var ríkjandi í vatninu en síðasta áratug hefur urriðinn sótt í sig veðrið og er nú að verða algengasta fiskitegundin í vatninu. Lax og sjóbirtingur ganga í vatnið úr Elliðaánum og upp í Hólmsá. Jöfn veiði er í vatninu en vatnið er þó sérstaklega vinsælt í maí. Ýmsar upplýsingar um veiði í Elliðavatni má finna á vef Veiðikortsins (sjá hér) og fróðleik og góð ráð má finna í bæklingi um veiði í vatninu eftir Geir Thorsteinsson hér.
Hér má finna hlekk á viðburðinn á Facebook.
Hér eru nokkrar myndir frá viðburðinum 2023.