Heppnir veiðimenn dregnir úr skráningapotti!

Við vorum að draga úr innsendum veiðiskráningum síðasta sumars en 10 heppnir veiðimenn fá Veiðikortið 2025 að launum.

 

Þeir heppnu hafa fengið tölvupóst en þeir eru:

Þorgeir Ellertsson
Hlöðver Ólafsson
Sebastian
Tryggvi Már Gunnarsson
Óðinn
Gísli Rúnar Óskarsson
Matiass Preiss
Ingvi Már Gíslason
Przemek Madej
Eldjárn Hallgrímsson

 

Með hátíðarkveðju,

Veiðikortið

Veiðikortið í jólapakkann!

Veiðikortið 2025 er komið út og klárt í jólapakka landsmanna.

Gríptu kortið hjá N1, Olís eða næstu veiðibúð.  Einnig hægt að kaupa það hér á vefnum.
(Einnig hægt að panta kortið með Dropp þjónustu fyrir þá sem vilja grípa það á næsta afhendingarstað)

Þeir sem vilja gefa Veiðikortið í rafrænu formi geta gert það og skráð þá í kaupferlinu nafn og kennitölu þess sem á að vera skráður á kortið. Síðan má prenta út qr kóða og setja í umslag og lauma undir jólatréð eða í skóinn.

Með jólakveðju,

Veiðikortið

Veiðikortið 2025 að koma út!

Veiðikortið 2025 kemur út á næstu dögum og því hægt að lauma því í jólapakka landsmanna.

Með Veiðikortinu má veiða í 37 vatnasvæðum vítt og breitt um landið fyrir aðeins kr. 9.900.- og rétt er að benda á að mörg stéttarfélög niðurgreiða kortið til sinna félagsmanna.

Litlar breytingar verða á vatnasvæðum á milli ára en Blautulón á Fjallabaki bætast við.

Rafræna Veiðikortið 2025 er nú þegar komið i sölu og hægt að kaupa hér rafrænt eða sem gamla góða plastkortið og fá það sent heim án aukakostnaðar í byrjun desember.

Forsíðu Veiðikortsins 2025 prýðir veiðimanninn Gunnar Þór Gunnarsson með vorurriða úr Gíslholtsvatni sem hann veiddi vorið 2024. Myndina tók veiðifélagi hans Bjarni Bent Ásgeirsson.

Hægt er að skoða bæklinginn einnig á pdf formi með því að smella hér.

Hér er mynd af Veiðikortinu 2025, þ.e.a.s. plastkortið sjálft sem er skreytt með nærmynd af urriða úr Vífilsstaðavatni og veiðistöng.

Með bestu kveðju,

Veiðikortið

Ertu búinn að skrá þína fiska?

Veiðiskráningarleikur Veiðikortsins!
– Vinnur þú Veiðikortið 2025?

Samkvæmt lögum nr. 61 frá 2006 um lax- og silungsveiði ber veiðifélögum eða veiðiréttarhöfum að skila inn skýrslum til Hafrannsóknarstofu í umboði Fiskistofu um veiðar í hverju veiðivatni og veiðimönnum ber því skylda að skrá allan veiddan fisk í veiðibók.

Við höfum því reynt að gera skráningu afla auðveldari fyrir veiðimenn með því að setja upp rafræna veiðibók á vefnum okkar veidikortdis.is/veidiskraning og hvetjum við veiðimenn til að skrá skilmerkilega veidda fiskar þar inn.

Í nóvember munum við draga út 10 heppna aðila sem hafa skráð í veiðibók og eiga möguleika á að vinna Veiðikortið 2025.

Hjálpaðu okkur að safna gögnum fyrir Hafrannsóknarstofu til úrvinnslu eins og til að meta stofnstærðir, hlutfall urriða og bleikju í vötnum, meðalstærð fiska og fleira. Okkar hagur er að geta fengið betri gögn í skýrslur Hafrannsóknarstofnunar sem má finna hér. auk þess að geta fengið Veiðikortið 2025 í vinning.

 

Takk fyrir þitt framlag!

Urriðadansinn á laugardaginn 12. október kl. 14:00

Árlegur urriðadans undir leiðsögn Jóhannesar Sturlaugssonar verður laugardaginn 12. október klukkan 14:00. Allajafna stendur viðburðurinn yfir í 90-120 mínútur.

Jóhannes Sturlaugsson hjá rannsóknafyrirtækinu Laxfiskum mun fræða gesti Þjóðgarðsins á Þingvöllum um  urriðann í Þingvallavatni , lífshætti hans og almennan hag.

Kynningin hefst við bílastæði P5 þar sem Valhöll áður stóð. Þaðan er gengið meðfram ánni upp undir Drekkingarhyl þar sem risaurriðar og aðrir minni verða skoðaðir og fjallað um lífshætti þeirra.
Gestir fá tækifæri til að sjá risaurriðann í návígi og fræðast um þennan stórhöfðingja Þingvallavatns sem á hverju hausti gengur upp Öxará til hrygningar.

Varasamir vegir eftir rigningar

Við biðjum veiðimenn að fara með gát um vegi og slóða t.d. við Langavatn og Hraunsfjörð en þar hafa slóðar farið illa í rigningum síðustu daga.

Unnið verður að lagfæringu á næstunni við slóðann inn í Hraunfirði.

 


Hér má sjá veginn inn að Langavatni.

Blautulón í Veiðikortið!

Veiðikortið bætir við Blautulónum sem er skemmtilegur kostur á hálendinu fyrir þá sem eru á ferð um Fjallabak.

Blautulón má finna á hálendinu í Skaftártungnaafrétti. Lónin eru tvö. Mest er af smábleikju í lóninu en þar má einnig veiða stærri ránbleikjur og stöku urriða.

Blautulón eru fjölskylduvænn veiðistaður þar sem mikið af fiski er í vatninu og flestir sem þar veiða fá fisk. Hér má veiða eins mikið og hver vill.

Við Blautulón ertu umvafinn eldfjallalandslagi, svörtum söndum og mosagrónum breiðum.

Vissara er að vera á sæmilegum bíl, jeppa eða jepplingi að minnsta kosti.

Við óskum eftir að veiðimenn sem kíkja uppeftir sendi okkur smá skýrslu um bæði veiði og einnig viljum við gjarnan fá myndir frá handhöfum Veiðikortsins.

Hér er hægt að skoða nánari upplýsingar um svæðið >> smella hér <<http://veidikortid.is/ofaerur

Góða skemmtun í sumar!
Veiðikortið

Hítarvatn opnar næstu helgi. Vegurinn enn illfær!

Hítarvatn opnar ekki fyrr en næstu helgi og er vegurinn enn blautur og illfær.

Einhverjir veiðimenn hafa verið að laumast inn að vatni og þeir verið að lenda í vandræðum sökum þess að vegurinn er enn mjög blautur. Þegar blautir slóðar eru eknir fer það jafnan mjög illa með slóðana og umhverfisspjöll geta skapast.

Við viljum við minna menn á að ekki fara upp að Hítarvatni fyrr en búið er að opna veginn um næstu helgi!

Með kveðju,

Veiðikortið

Veiðigleði við Elliðavatn á sumardaginn fyrsta

Á sumardaginn fyrsta hefst veiðitímabilið í Elliðavatni. Af því tilefni bjóða Skógræktarfélag Reykjavíkur, Veiðifélag Elliðavatns og Veiðikortið  til veiðigleði kl. 10-14 fimmtudaginn 25. apríl við Elliðavatnsbæinn.

Boðið verður upp á leiðbeiningar og góð ráð um vatnaveiði. Caddisbræðurnir Hrafn og Ólafur Ágúst ásamt Ólafi Tómasi í Dagbók Urriða, sem saman standa að Tökustuði (tokustud.is), verða á staðnum. Starfsmenn Skógræktarfélags Reykjavíkur verða á staðnum og kynna félagið. Hressing í boði í tilefni dagsins. Öll velkomin og frítt að veiða í vatninu.

Dagskrá:

  • Kl. 10–14: Aðstoð við veiðimenn, leiðbeiningar og góð ráð er varða veiði í Elliðavatni.
  • Kl. 11: Kynning frá Tökustuði (Caddisbræður og Ólafur Tómas)  – örnámskeið og fyrirlestur í Elliðavatnsbænum um vatnaveiði með áherslu á Elliðavatn.

Veiðimenn og unnendur Elliðavatns eru hvattir til að mæta og fagna komu veiðisumarsins. Þetta er einnig kjörið tækifæri fyrir nýliða til að kynna sér veiði í Elliðavatni. Veiðimenn geta keypt Veiðikortið á staðnum.

 

Um veiði í Elliðavatni

Elliðavatn er vinsælasta veiðivatn höfuðborgarsvæðisins og afar gjöfult. Veiðitímabilið hefst á sumardaginn fyrsta og lýkur 15. september og er daglegur veiðitími frá kl. 7:00 -24:00. Vatnið er í rúmlega 70 m hæð yfir sjávarmáli og um 1,8 km2 að flatarmáli, mesta dýpi er rúmir 2 m en meðaldýpi um 1 m. Í Elliðavatnið renna Bugða og Suðurá. Hólmsá heitir áin nokkru ofar, áður en hún skiptist í Bugðu og Suðurá. Í vatninu eru bleikja, urriði, lax og stöku sjóbirtingur. Bleikjan var ríkjandi í vatninu en síðasta áratug hefur urriðinn sótt í sig veðrið og er nú að verða algengasta fiskitegundin í vatninu. Lax og sjóbirtingur ganga í vatnið úr Elliðaánum og upp í Hólmsá. Jöfn veiði er í vatninu en vatnið er þó sérstaklega vinsælt í maí. Ýmsar upplýsingar um veiði í Elliðavatni má finna á vef Veiðikortsins (sjá hér) og fróðleik og góð ráð má finna í bæklingi um veiði í vatninu eftir Geir Thorsteinsson hér.

Hér má finna hlekk á viðburðinn á Facebook.

 

Hér eru nokkrar myndir frá viðburðinum 2023.

Veiði hefst í Kleifarvatni 15. apríl!

Þrátt fyrir að jörð skelfi á Reykjanesinu og jarðskjálftamælar titri, þá hefst veiði í Kleifarvatni á morgun, 15. apríl.

Fyrstu dagar tímabilsins er jafnan eftirsóttir þar hjá þeim sem eru í urriðaleit, en vatnið er frægt fyrir sína vænu urriða. Það er svo ekki fyrr en það fer að hlýna að bleikjan fari að sýna sig.

Þetta er allt að fara í gang!

Góða skemmtun!

Með kveðju,

Veiðikortið