Það hefur ekki farið framhjá veiðimönnum að veiðitímabilið er farið af stað og fiskur farinn að veiðast víða. Hér fyrir neðan höfum við tekið saman nokkrar fréttir héðan og þaðan.


Vatnaveiðin að komast á fullt.  

 

 

Hraunsfjörður:

Þar hefur verið mikið líf og fín veiði og veiðimenn jafnvel fengið á annan tug fiska. Algeng veiði er þó 2-6 fiskar. Veiðimenn hafa verið að veiða aðallega á litlar svartar púpur og má þar nefna Peacock og Langskegg. 

Þingvallavatn – þjóðgarður:

Það hefur verið nokkuð kalt og færri veiðimenn stundað vatnið það sem af er miðað við þegar hlýrra er í veðri. Nokkrir vænir urriðar hafa þó komið á land og einnig nokkar vænar sílableikjur. Vinsælustu snemmsumarstaðirnir hafa verið við Vatnskotið sem og á Lambhaga. Með auknum hlýindum fer fiskur meira á kreik.

Úlfljótsvatn:
Við heyrum af veiðimanni sem fékk fallega bleikju í Botnavík, en það svæði er jafnan ekki komið í gang fyrr en um miðjan júní. Það er því ánægjulegt að heyra af því að bleikjan sé komin á kreik í Úlfljótsvatni.

Kleifarvatn á Reykjanesi:
Ólafur Jónsson fékk tvo væna urriða í vatninu í gær. Stærri urriðinn vó 8 kg og var 81cm. Ummál fisksins var 53cm. Hann fékk annan sem var um 4kg. Það er ánægjulegt að vita að stórurriðinn í vatninu er kominn á stjá.

 

Gíslholtsvatn:
Veiðimönnum hefur gengið vel í vatninu síðustu vikur. Við höfum heyrt af nokkrum sæmilegum fiskum en uppistaðan í veiðinni hefur verið frekar smár urriði. 

Vötnin í Svínadal: Þórisstaðavatn, Geitabergsvatn og Eyrarvatn.
Vatnasvæðið opnaði snemma fyrir veiði, eða 1. apríl. Veiðimenn hafa verið nokkuð duglegir að kíkja þangað og reyna við urriðann. Við viljum árétta að veiðimenn sem ætla sér að kíkja þangað að skoða skýringamyndina hér fyrir neðan varðandi hvar má aka bifreiðum, en nokkrir veiðimenn hafa ekið í gegnum tún og sléttur sem eru sérstaklega viðkvæmar snemmsumars. Það er því óheimilt að aka inn fyrir rauðu línurnar (sjá mynd fyrir neðan).


Hér má sjá rauða línu við Þórisstaði í Svínadal. Það má ekki aka inn fyrir þessa rauðu línu og því 
þurfa veiðimenn að ganga síðasta spölinn ætli menn sér að veiða fyrir innan þessi mörk.

 

Við höfum lítið frétt af aflabrögðum í öðrum vötnum síðustu daga. Það væri því gaman að heyra frá ykkur veiðimenn varðandi hvernig gengur á öðrum svæðum.

 

Með veiðikveðju,

Veiðikortið

 

 

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Þeir fiska sem róa!
Næsta frétt
Meðalfellsvatn again on the Fishing Card!