Gleðilegt sumar!
Það var fallegt veður í dag þegar Elliðavatnið opnaði. Það var frekar kalt í dag og það fraus í lykkjum á veiðistöngum veiðimanna fyrst um morguninn en stilla og fallegt veður. Það voru margir veiðimenn sem mættu í vatnið í dag þrátt fyrir kuldann. Menn voru í raun ekki að veiða mikið en það komu þó nokkrir fallegir fiskar á land.
Aðallega voru menn að veiða urriða i dag, enda er urriðinn frekar á hreyfingu í köldu veðri en bleikjan lét þó aðeins sjá sig. Urriðarnir sem veiðimenn voru að fá voru í góðum holdum og koma greinilega vel undan vetri og voru menn að veiða fiska sem náðu allt að 4 pundum í dag.
Menn voru að veiða fiska um allt vatn í rauninni en fiskar voru að fást út á Engjum, Þingnesi, Helluvatni og Hólmsá svo dæmi séu tekin. Færri voru við veiðar Kópavogsmegin og höfum við ekki fengið fréttir þaðan.
Sportveiði TV voru á bakkanum og tóku viðtal við veiðimenn á staðnum og má sjá það hér: http://www.youtube.com/watch?v=39Vy9_VFa9g
Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir sem við tókum í dag. Einnig viljum við hvetja veiðimenn til að fylgjast með okkur á Facebook, en þar geta veiðimenn auðveldlega sent myndir inn á síðuna okkar beint af bakkanum auk þess sem hægt er að fylgjast betur með enda reynum við að deila þar fréttum sem tengjast beint eða óbeint vatnasvæðum Veiðikortsins.

Halldór Gunnarsson með glæsilegan urriða sem hann fékk í Helluvatninu snemma morguns.

Veiðimaður á vaði við Engjasvæðið.

Flottir fiskar sem fengust snemma morguns við Þingnesið.

Gæsir á flugi og borgin í bakgrunn.
Nú bíðum við bara eftir að það hlýni og vonandi verður hlýtt og gott veður í næstu viku þegar fleiri vötn opna eins og t.d. Þingvallavatn og Úlfljótsvatn.
Einnig verður gaman að fylgjast með Elliðavatni þegar það hitnar í veðri.

Fallegt veður í morgunsárið þrátt fyrir að það hafi verið við frostmark.
Fleiri myndir má sjá í myndaalbúminu okkar hér á vefnum undir Elliðavatn sem og á Facebook síðu okkar sem við hvetjum þig til að skoða og fylgjast með okkur þar.
Með veiðikveðju,
Veiðikortið
0 Comments