Ómar Smári Óttarsson átti skemmtilegan dag í Hraunsfirði þann 9. júní.  Hann fékk 6 fallegar bleikjur og hann tjáði okkur að það væri mikið af bleikju í firðinum.  Laxinn var aðeins farinn að ganga en ekki í miklu mæli.

Feit og falleg sjóbleikja úr Hraunsfirðunum sem Ómar Smári fékk 9. júní.
 
Flottir veiðimenn í Hraunsfirði.
 
Ómar Óttar með flotta sjóbleikju!
 
Fallegt í Hraunsfirði á svona góðviðrisdögum.
 
Ómar Óttar er mikill veiðiáhugamaður en hann fór einnig í Vífilsstaðavatn þann 1. júní og fékk þennan fína urriða sem má sjá hér fyrir neðan.
Feitur og pattaralegur urriði úr Vífilsstaðavatni.  
Við höfum verið að heyra góðar sögur úr vötnunum og vatnaveiðin virðist vera komin á fleygiferð.  Það getur þó verið misjafnt hvernig og hvenær menn hitta á réttu veiðistundirnar, en því fékk Sigurður Valgeirsson að kynnast.  Í gær, 11. júní fór hann til veiða á Þingvöllum og ekkert gekk og hann varð lítið var við fiska.  Hann fór síðan aftur í morgun og var mættur í Vatnsvíkina kl. 6.00 og þá var stilla og fiskur að vaka út um allt.  Það gekk erfiðlega að fá bleikjuna til að taka en það var eins og hún væri í æti í yfirborðinu og leit ekki einu sinni við þurrflugu þrátt fyrir það.  Skömmu síðar kom smá gára á vatnið og þá setti Sigurður undir nýja flugu frá Júlíusi í Veiðikofanum og fékk hann 5 glæsilegar bleikjur á þá hana.  Stærðin á þeim var frá 1 pundi upp í 5 pund!  Hér fyrir neðan má sjá myndir af þessum fallegu fiskum og veiðimanninum.
 
Sigurður Valgeirsson með fallegan afla úr Þingvallavatni í morgun, 12. júní.
 
Hér má sjá mynd af stærstu bleikjunum sem Sigurður fékk í morgun.
 
Einnig má nefna að veiðimenn hafa verið að fá fína veiði í Meðalfellsvatni þó svo fiskurinn sé ekki mjög stór þá er mikið af honum og þægilegt fyrir yngri kynslóðina að veiða þar.
Úlfljótsvatn hefur einnig verið að gefa fínar bleikjur síðustu daga og Kleifarvatn farið að gefa einn og einn fisk en vatnið hefur farið óvanalega rólega af stað en nú virðist það vera að taka við sér.
Við hvetjum veiðimenn til að kynna sér www.veidibok.is en þar er gott að skrá aflann úr vötnunum í Veiðikortinu auk þess sem menn geta fengið nýjar fréttir með myndum og nánari upplýsingum um beitu, veðurskilyrði og fleira.  Einnig er Veiðibók.is kjörin til að halda utan um veiðiferðir veiðimanna hvort sem menn vilja deila þeim upplýsingum með öðrum eða halda þeim leyndum.
 
Með veiðikveðju,
Veiðikortið 

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Héðan og þaðan – veisla í vötnunum
Næsta frétt
Vatnaveiðin er yndisleg og ekkert stress!