Veiðimenn hafa verið að veiða vel í Elliðavatni það sem af er sumri. Aðallega hafa menn verið að fá fína urriða og ekki óalgent að fá 2-3 punda urriða þar. Hægt er að skoða upplýsingar á veidibok.is þar sem menn hafa verið að bóka afla úr Elliðavatni.

 
Arnar Tómas er einn af ungu veiðimönnunum sem stundar vatnið mikið, en það er gaman að fylgjast með nýrri kynslóð veiðimanna sem virðist standa sig gríðarlega vel.
 

Arnar Tómas með fallegan urriða úr Elliðavatn í maí 2014.
 
Hér fyrir neðan kemur smá lýsing af því hvernig Arnar nálgast vatnið, eftirlætis staðirnir hans sem og hvernig hann veiðir.  
 
Gefum Arnari orðið:
 
"Fyrst aðeins varðandi búnað og flugur: Í Elliðavatni er fiskurinn mjög taumstyggur og best hefur reynst að vera með 4 til 6 punda taum, helst grannan og best að hafa hann langan. Ég persónulega nota 11 feta langan taum og jafnvel lengri auk þess sem ég nota yfirleitt "dropper" með ( kúluhaus í neðri flugu og létta púpu í efri ).  Báðar flugurnar eru mjög smáar. Aðal litirnar í flugunum að mínu mati eru pínulitlar svartar með smá hvítu í sem svipar til Burton og síðan dökkbrúnar með koparvír.
 
Næsta mál er varðandi inndráttinn, en það er eiginlega aðalatriðið að mínu mati.  Löturhægur og stuttur inndráttur er málið, rétt til að taka slakann af línunni.  Ef fiskur er í bullandi yfirborðstöku þá virkar vel að draga aðeins hraðar inn og lengri drætti.  Einnig vil ég mæla með að menn kasta eins langt og hægt er til að veiða eins stórt svæði og hægt er.
 

Fallegir fiskar úr Elliðavatni sem Arnar veiddi nýlega.
 
En þá að helstu stöðunum. Ég veiði mest í Elliðavatninu sjálfu. Þar eru staðir eins og Þingnes, Riðhóll (bleikjutangi), Lækjarhólmar (stóri steinninn sem er útí hinum meginn við Elliðavatnsbæinn) og víkin við Elliðavatnsbæinn.
*
Fyrst er það Þingnesið. Þarna er alltaf hægt að lenda í veiði ef maður veður út að stóra grjótinu sem er yst á tanganum. Alls ekki lengra en grjótið því það er kantur rétt fyrir framan sem fiskurinn gengur meðfram. Byrja þarf að kasta í áttina að eyjunni á vinstri hönd og vinna sig hægt og bítandi í að kasta í áttina að gamla húsinu sem er við bakkann á hægri hönd. Þrjú til fjögur köst á sama stað og muna bara heilræðin tvö, draga hægt og nota litlar flugur.
 
Riðhóll kemur næst.  Þarna er yfirleitt  frábær bleikjuveiði eftir miðjan júlí, sérstaklega þar sem lækurinn kemur útí því bleikjan leitar í kalda vatnið.  Mér hefur reynst best að vera með litlar  mýpúpur eins og t.d. MME eða eitthvað í þá áttina.
 
Lækjarhólmar: Þar er alltaf hægt að hitta á fisk.  Ég veiði mest á nefinu hjá víkinni með því að vaða upp að mitti og kasta í áttina að Elliðavatnsbænum og dreg mjög hægt inn!
 
Það er fín hreyfing á fisknum í vatninu og allstaðar hægt að hitta á fisk.  Um að gera að prufa sem flesta staði því maður veiðir ekkert nema reyna!
 
Með veiðikveðjum 
Arnar Tómas "
 
 
Við þökkum Arnar fyrir að deila þessu með okkur og er þetta gott innlegg fyrir þá sem ætla sér að kíkja í Elliðavatnið á næstu dögum.  Einnig minnum við veiðimenn á að skoða bæklinginn sem hann Geir Thorsteinsson gaf út og má nálgast hann hér í vefútgáfu.  Þar má finna góð kort af vatninu til að styðjast við og góðar leiðbeiningar.
 
Með veiðikveðju,
Veiðikortið

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Veiði hafin í Vestmannsvatni.
Næsta frétt
Héðan og þaðan!