Það hefur verið góður gangur í vötnunum síðustu daga.  Veiðimenn hafa verið að fá fína veiði í öllum landshlutum.  Við höfum fengið talsvert af veiðifréttum síðustu daga frá mest sóttu vötnunum, en köllum eftir fréttum frá fleiri vötnum.  

Í Þingvallavatni er búið að vera góð veiði.  Veðrið upp á síðkastið hefur þó ekki alveg verið eins og hefðbundinn júlímánuður enda hitastig verið frekar lágt og vindurinn hefur verið að hrella veiðimenn. Algengt er að veiðimenn séu að veiða fínar bleikjur og eitthvað af murtu í bland.
 
Hugrún Olga með fallega bleikju sem hún veiddi 4. júlí s.l. í Þingvallavatni.
 
Tvær hefðbundnar kuðungableikjur, 35 og 37cm sem Arnar Bjarki Jónsson veiddi í byrjun júlí. 
 
Úlfljótsvatn hefur einnig verið öflugt síðustu daga þannig að bleikjan er farin að sýna sig í mun meira mæli en áður.  Veiðimenn hafa verið að fá allt upp í 5 punda bleikjur í vatninu síðustu daga. 
 
Það var margt um manninn við Elliðavatn í byrjun vikunnar og veiðimenn voru á fá flotta urriða í Helluvatni auk þess sem fyrsti laxinn sem við höfum frétt af veiddist í straumnum fyrir neðan brúnna á milli Helluvatns og Elliðavatns um síðustu helgi.  Við kíktum á stöðuna þar á mánudag og rétt áður en okkur bar að garði voru tveir veiðimenn búnir að fá um 3 punda urriða í Helluvatni.  
 
Friðrik með fallegan 3 punda urriða úr Helluvatni (Elliðavatni) sem hann veiddi 8.7.2013.
 
Veiðimenn hafa verið að fá ótrúlega góða bleikjuveiði í Hópinu en við höfðu þó aðallega heyrt af góðri veiði við ósa Gljúfurár.  Við hvetjum veiðimenn til að virða veiðireglur sem gilda við ósasvæði en almenna reglan er að bannað er að veiða innan 100 metra frá ós fyrir þá sem veiða í vatninu.  Væntanlega er einnig fín veiði á Ásbjarnarnesinu líka þó það sé óstaðfest.
 
Þeir sem eru á ferðalagi um Fjallabyggð, ættu að reyna veiðar í Sléttuhlíðarvatni, en fín veiði er iðulega á þessum tíma þar. 
Falleg veiði úr Sléttuhlíðarvatni í júní.
 
Fyrir norðan er búið að vera frábært veður og þá er fátt skemmtilegra en að skella sér léttklæddur í vatnaveiði, án þess að þurfa a.m.k. að klæða sig upp í lopapeysu og regngalla eins og á suðvestuhorninu.  Lárus Óskar fór ásamt Gurrý konu sinni  í Ljósavatn í rúmlega 20 stiga hita á miðvikudaginn.  Þau fengu 5 fína urriða sem vógu 1-2,5 pund auk þess sem þau fengu eina bleikju sem var um eitt pund.  Allir fiskarnir tóku maðkinn.
 
Lárus Óskar með fallega veiði úr Ljósavatni.
 
Aflinn hjá Lárusi úr Ljósavatni fyrr í vikunni.
 
Á bloggsíðu Kristjáns Friðrikssonar, Flugur og Skröksögur www.fos.is, má lesa ferðasögu hans um Melrakkasléttu en þar er eflaust hægt að dunda sér í nokkrar vikur til að kanna nýjar slóðir.
 
Hér fyrir neðan eru nokkrar innsendar myndir frá veiðimönnum til viðbótar:
Tveir kátir við Elliðavatn!  Arnar Bjarki Jónsson ásamt laglegum urriða.
 
Rennt fyrir fiski í Ljósavatni.  Mynd Lárus Óskar.
 
Falleg bleikja úr Þingvallavatni – Mynd Hugrún Olga.
 
Í lokin viljum við minna veiðimenn á Facebook síðu Veiðikortsins en þangað ratar ýmislegt sem ekki fer á vefinn, eins og t.d. myndir beint frá bakkanum sem veiðimenn senda inn sem og ýmsir tenglar á efni sem tengist veiðisvæðum Veiðikortsins.
 
Með veiðikveðju,
Veiðikortið

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Góð veiði í Úlfljótsvatni!
Næsta frétt
Héðan og þaðan – Glæsilegur urriði úr Úlfljótsvatni