Það er búið að vera fín veiði í vötnunum í blíðunni síðustu daga. Þegar heitt er í veðri fer oftast skordýralífríkið á fullt og þá er nóg að borða fyrir silunginn. Þá getur verið erfitt að keppa við náttúrulega fæðu með t.d. flugum eða beitu. Á næstu dögum er von á kólnandi veðri, í einhverja daga a.m.k. og þá ætti að fiskurinn jafnvel að taka betur.
Friðgeir Axfjörð skellti sér á Melrakkasléttuna þann 10. júlí s.l. Hann prófaði að veiða í Æðarvatni og á tveimur klukkutímum fékk hann 4 fallegar bleikjur og 1 urriða. Allir fiskarnir voru um 2 pund (800-900 grömm). Það var fallegt veður þegar hann var við veiðar, sól, smá mistur og hlýtt í veðri. Allir fiskarnir tóku fluguna Ölmu Rún. Hér fyrir neðan má sjá fyrstu tvo fiskana sem hann fékk.
Fallegar bleikjur úr Æðarvatni. Mynd Friðgeir Axfjörð.
Í Þingvallavatni er búið að vera fín bleikjuveiði og hafa veiðimenn verið að fá fallegar bleikjur í bland við murtur. Einnig lítur út fyrir að urriðinn sé farinn að sýna sig nær landi eftir gott hlé en Lukasz fékk 16 punda urriða í vatninu þann 26. júlí um kl. 23.00 um kvöldið. Hér fyrir neðan má sjá mynd af honum með stóra urriðann en hann tók spún.
Lukasz með fallegan 16 punda urriða!
Elliðavatnið hefur verið að gefa vel í sumar. Guðmundur Ásgeirsson hefur verið duglegur að stunda vatnið í sumar og hér fyrir neðan má sjá veiði sem hann fékk 26. júlí, en þar má sjá urriða frá 1 pundi upp í 4,4 pund. Einnig höfum við heyrt af nokkrum löxum sem hafa veiðst í Helluvatninu, en lax hefur séðst þar og við Kríunes. Kalli Lú, veiði- og fjölmiðlamaður, fékk t.d. fallegan lax í vatninum fyrir nokkrum dögum.
Urriðar sem Guðmundur Ásgeirsson veiddi um kvöldið 26. júlí s.l.
Veiðimenn hafa verið að fá ágætis veiði í Hítarvatni og eitthvað er farið að veiðast í Haukadalsvatni í Dölum, þannig að sjóbleikjan er greinilega farin að ganga. Heyrðum frá veiðimanni sem var þar í síðustu viku og fékk hann tvær fínar bleikjur á maðkinn. Einnig má lesa um veiðiferð Kristjáns www.fos.is um ferð í Haukadalsvatn núna um helgina, en þegar hann var við veiðar voru margir að veiða en bleikjan ekki að gefa sig í Hitanum. Það leit kannski ekki vel út en bændur voru búnir að setja niður þó nokkuð að netum, þannig að það ætti að vera vísir að því að bleikjan sé komin, en miðað við teikningu hjá honum varðandi staðsetningu neta þá ætti það vægast sagt að hindra för bleikjunnar talsvert upp í vatn. Við munum kanna betur hvernig netamálum er háttað, þá sérstaklega á veiðisvæðinu fyrir ofan útfallið.
Fín veiði er annars um allt land. Veiðimenn hafa verið að fá góða veiði upp á Skagaheiði sem og í Hólmavatni í Dölum.
Gaman væri að heyra frá fleiri veiðimönnum sem hafa verið á flakki um landið.
Með veiðikveðju,
Veiðikortið
0 Comments