Merkilegir og merktir fiskar! Skyldulesning fyrir þá sem veiða á Þingvöllum, Úlfljótsvatni og Kleifarvatni.
Veiðikortinu bárust upplýsingar frá veiðimanni um 2 merkta urriða sem hann veiddi annarsvegar í Þingvallavatni og hinsvegar í Úlfljótsvatni.

 
Í framhaldinu höfðum við samband við Jóhannes Sturlaugsson hjá rannsóknafyrirtækinu Laxfiskum ehf sem stundar viðamiklar rannsóknir á þessum svæðum sem byggja á merkingum. Jóhannes staðfesti að fiskarnir hefðu verið merktir af rannsóknafyrirtæki hans og sendi okkur eftirfarandi upplýsingar um fiskana.
 
Stærri fiskurinn sem veiddur var í Úlfljótsvatni fyrir nokkru. Hann bar blátt útvortis númerað plastmerki (slöngumerki) efst á baki við hlið bakuggans og hafði einnig svo kallað rafkenni sem skotið hafði verið niður í fiskholdið við hlið bakuggans á vinstri hlið fisksins (sjá meðfylgjandi skýringarmynd).  Þessi urriði var við endurheimtu 12 pund og 83 cm langur.  Hann hafði verið veiddur við hrygningu í Efra-Sogi neðan stíflu í október 2008 ásamt félögum sínum og merktur. Þá var fiskurinn 5425 grömm eða sem samsvarar 11 pundum og 77,2 cm langur. Mesta ummál hans við merkingu var 42,5 cm. Benda má á að þegar fiskurinn veiddist þá átti hann eftir að missa töluverða þyngd vegna hrygningarinnar og kjölfarið var vetursetan eftir. Því má segja að vöxtur fisksins sé góður nú þegar í upphafi sumars.
 
Minni merkti fiskurinn sem veiðimaðurinn veiddi hafði töluvert stutta og að segja má skondna fortíð hvað merkinguna varðar. Sá fiskur er veiddur í landi Þjóðgarðsins þann 16. maí. s.l. þá 10 pund. Þessi sami fiskur var merktur deginum áður þ.e.a.s. 15. maí af Laxfiskum með appelsínugulu númeruðu plastmerki (slöngumerki í bak við hlið bakuggans) vestast á veiðisvæði Þjóðgarðsins þ.e.a.s. aðeins vestur af staðnum þar sem fiskurinn veiddist.
Við merkingu var fiskurinn tæp 5,5, kg og rúmlega 77 cm langur. Mest ummál fisksins var 42,5 cm. Þannig var þessi fallegi 11 punda fiskur veiddur tvisvar sinnum sama sólarhringinn í þessu stærsta náttúrulega vatni Íslands.
 
Í lokin vildi Jóhannes fá að koma á framfæri þakklæti til veiðimanna fyrir að láta sig vita af merktum fiskum sem veiðast. Sumir merktu fiskanna sem veiðast hafa verið í það góðu ásigkomulagi að mögulegt hefur verið að sleppa þeim. Mjög mikilvægt er þá að skrá númer plastmerkja sem og númer stærri merkja fyrir sleppingu sé þess nokkur kostur. Vegna þess hve stafirnir á merkjunum eru smáir er slík skráning stundum nokkuð strembin.
 
Ef fólk veiðir fiska með útvortis rafeindafiskmerki (mælimerki eða hljóðsendimerki) sem mögulegt væri að sleppa þá væri snjallast ef lesning númera orkar tvímælis að kippa bara númeraða plastmerkisþræðinum (slöngumerkinu) úr fiskinum og skila því merki ásamt upplýsingum um veiðistað og veiðitíma. Þannig fá bæði veiðimaðurinn og rannsóknarverkið upplýsingar um fiskinn og fiskurinn getur haldið áfram að sinna mikilvægu rannsóknahlutverki sínu.  Slík aðferðafræði gildir þó því aðeins að fiskarnir beri einnig mælimerki eða hljóðsendimerki.
 
Í lokin er rétt að benda á að hér á vefsvæði Veiðikortsins verður hægt að nálgast 2 upplýsingablöð til veiðimanna frá rannsóknafyrirtækinu Laxfiskum. Þar er að finna leiðbeiningar til veiðimanna varðandi merkjaskil og tilheyrandi skráningu upplýsinga og fleira sem varðar merkta silunga í Þingvallavatni og Úlfljótsvatni sem og í Kleifarvatni.
 
Hér fyrir neðan má sjá leiðbeiningar vegna merktra fiska miðað við mismunandi vatnsvæði.
 
Upplýsingar fyrir merkta fiska í Kleifarvatni
 
Upplýsingar fyrir merkta fiska í Þingvallavatni og Úlfljótsvatni.
 
Sett verður upp upplýsingasíða hérna á vefnum til að auðvelda mönnum aðgengi að því hvað á að gera þegar menn veiða merkta fiska.
 
Við þökkum Jóhannesi Sturlaugssyni hjá Laxfiskum kærlega fyrir þessar skemmtilegu upplýsingar.
 
Með kveðju,
Veiðikortið.
 

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Sléttuhlíðarvatn leynir á sér – veiðin komin í gang.
Næsta frétt
Viðtal á Rás 2 við Hilmar Malmkvist vatnalíffræðing