Nú er sá tími runninn upp að veiðimenn eru farnir að iða enda stutt í að vorveiðin hefjist. Birtan eykst með degi hverjum og veiðimenn farnir að yfirfara veiðibúnaðinn og fylla á fluguboxinn fyrir sumarið. Við heyrðum í Kristjáni Friðrikssyni hjá www.fos.is (Flugur og skröksögur) en hann heldur úti öflugum vef fyrir fluguveiðimenn þar sem er að finna gríðarlegt magn upplýsinga, jafnt um flugur, veiðiaðferðir, hnúta og fleira sem við kemur veiðinni auk þess sem þar má finna tengla í flottustu veiðimagasínin sem finnast á netinu. Hér fyrir neðan kemur smá pistill sem hann setti saman fyrir okkur. Við vekjum sérstaka athygli á skemmtilegum viðburði á Facebook sem hann stendur fyrir sem kallast Febrúarflugur.
FEBRÚARFLUGUR
Í febrúar og mars huga menn í alvöru fyrir því að fylla á fluguboxin fyrir komandi sumar, í það minnsta þeir sem hnýta sínar flugur sjálfir. Mörg stangaveiðifélög og klúbbar efna til hnýtingarkvölda þar sem veiðimenn koma saman, hnýta jafnvel ákveðið þema; púpur, straumflugur eða þurrflugur. Svo eru þeir sem sitja heima við á kvöldin, hnýta sínar uppáhalds og nostra við að raða í boxin.
Ein hugmynd að boxi fyrir sumarið gæti t.d. innihaldið hæfilega blöndu af straumflugum og púpum. Það þarf alls ekki margar tegundir til að vera vel settur fyrir sumarið, Nobbler í svörtu, orange, bleiku og rauðu. Eins og ein til tvær margreyndar straumflugur, t.d. Black Ghost og Rektor. Helst þurfa menn að eiga eins og eina útgáfu af Blóðormi, Watson‘s Fancy púpu, Krókinn, Black Zulu og svo auðvitað Peacock, Kolbeins Grímssonar. Með einfalt box sem þetta ættu menn að komast vel af stað inn í sumarið.
Hér fyrir ofan eru nokkrar fallegar flugur sem Kristján Friðriksson hjá FOS.IS hefur verið að hnýta síðustu daga.
Ef einhvern vantar fleiri hugmyndir, þá er e.t.v. ekki úr vegi að taka þátt í skemmtilegum viðburði á Facebook sem ber heitið Febrúarflugur. Þar hefur hópur hnýtara tekið sig saman og sett inn myndir af því sem þeir eru að hnýta fyrir sumarið. Viðburðurinn er öllum opinn og er aðgengilegur undir heitinu Ferbrúarflugur á Facebook.
Við látum síðan fylgja uppskrift að þessari útgáfu Peacock, einföld og gjöful fluga.
Öngull: stærð #10 – #14
Kúla: gull
Tvinni: svartur eða dökkgrænn 8/0
Búkur: fanir úr páfuglsfjöður
Vöf: koparvír
Skott: orange floss
Aðferð: Eftir að kúlan hefur verið sett á öngulinn er þráðurinn festur niður og öngullinn vafinn þétt frá kúlu og aftur að bug. Þar er ríkulegur vöndull af flossi festur niður, má vera vel við vöxt því best er að snyrta/stytta hann eftir að flugan hefur verið kláruð. Þegar flossið hefur verið fest niður er koparvírinn hnýttur niður inn miðjum legg og þaðan og aftur að bug eru festar 4-5 fanir af páfuglsfjöður. Til að tryggja endingu flugunnar er ekki úr vegi að lakka vel yfir festingar vírs og kopars. Gott er að vefja fönunum létt um hnýtingarþráðinn áður en þeim er vafið þétt fram eftir leggnum að kúlunni. Þegar fanirnar hafa verið festar tryggilega er vírnum vafið í víðum bugum yfir legginn og fram að kúlu. Gangið tryggilega frá enda vírsins við kúluna og gangið frá hnýtingarþræðinum með nokkrum öruggum hnútum og lakkið vel yfir.
Við þökkum Kristjáni fyrir þessi orð og vonandi þau menn til að fara að kíkja á veiðibúnaðinn og taka fram "hnýtingavæsinn".
Með veiðikveðju,
Veiðikortið
0 Comments