Nú er sá tími sem ætti að vera mjög góður fyrir bleikjuna á Þingvöllum.  Svo virðist sem bleikja sé eitthvað seinna á ferðinni rétt eins og sumarið og kannski ekkert óeðlilegt við það miðað við hvernig veðurfarið hefur verið.

Við heyrðum í Benedikt V. Gunnarssyni en hann kíkti í vatnið í gær, 17. júní, og fékk eina stórglæsilega bleikju sem var 50 cm og 1,6 kg að þyngd og tók hún Watson Fancy púpu sem var hnýtt á tvíkrækju nr. 12 og heillökkuð.

Hann þurfti að hafa mikið fyrir þessum fiski eftir að hafa veitt í frá klukkan 7. Hann bar niður í Vatnskotinu og virtist vera lítið að gerast hjá veiðimönnum sem voru að veiða á svæðinu, þannig að það má segja að bleikjan sé ekki mætt á svæðið í því magni sem við eigum að venjast. Hins vegar eru þær yfirleitt stórar bleikjurnar sem mæta í fyrra fallinu.  Um hálftíma áður en bleikjan tók hjá honum skvetti sér einn stórurriði rétt fyrir framan nefið á honum, þannig að það er fullt að gerast þrátt fyrir að ekki sé kominn fullur kraftur í bleikjuveiðina, enda er veðráttan búin að vera hálf undarleg.

Við vonum að bleikjan fari að mæta á svæðið af fullum þunga þannig að veiðimenn geti aukið ánægju sína við vatnið um komandi helgi.

Úlfljótsvatn virðist vera að koma sterkt inn og hafa veiðimenn verið að fá þar bæði bleikju og urriða, en samkvæmt veidibok.is hafa menn verið að að fá þar nokkrar bleikjur. Heyrðum að veiðimanni sem fékk fallegan 6 punda urriða þar í gær ásamt fallegri bleikju.

 

Með veiðikveðju,

Veiðikortið

 

 

 

 

 

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Vatnaveiði árið um kring – flott veiðibók komin út!
Næsta frétt
Laxinn er mættur í Hraunsfjörðinn!