Síðasta föstudagskvöld hélt Þorsteinn Stefánsson, veiðimaður, flotta kynningu hjá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur, á því hvernig maður á að bera sig að við veiðar á urriða í Þingvallavatni. Hér kemur kynningin frá honum í heild sinni þar sem stiklað er á ýmsum málum, eins og veiðistöðum, veiðibúnaði og öðru.
Margir hafa eingöngu verið að stunda urriðaveiðarnar rétt fyrir ljósaskiptin, en hjá Þorsteini er það eiginlega öfugt farið. Hann veiðir aðallega á morgnana og á daginn, og þá er einnig fámennt við bakkana.
Hér er Þorsteinn með einn af fjölmörgum risaurriðum sem hann hefur dregið að landi. / Maí 2014.
Hann veiðir aðallega með flotlínu en einnig ekkert að því að nota t.d. hægsökkvandi flugulínu. Hann veiðir á stöng #5 en það er reyndar ekki fyrir hvern sem er að vinna á stórrurriðanum með svo léttri græju. Hann veit hins vegar hvað má bjóða stönginni og búnaðinum sem hann er með.
Eitt af lykilatriðinum er að fara vel yfir línuhnútana. Hnútur á undirrlínu við hjól þarf að vera tryggur. Undirlínuna sjálfa þarf að grandskoða því eftir nokkur ár á hjólinu getur hún orðið morkin og hæglega slitnað. Hann veiðir með 12-14 punda taum og notast við Fluorcarbon tauma þar sem þeir fara mun betur í köldu vatni og þá er hann í betra sambandi við fiskinn og missir síður af léttum tökum, enda krullast oft upp á 20 punda tauma sem getur orðið til þess að þú missir hreinlega af tökunni.
Einnig þarf að tryggja vel að hnútur milli undirlínu og flugulínu sé tryggur. Það þýðir ekkert að bjóða urrriðanum upp á neitt kæruleysi varðandi vindhnúta sem kunna að koma á tauminn. Þetta er mjög einfalt! Ef þú færð vindhnút á tauminn þá skiptirðu um taum. Þú vilt ekki missa þann stóra vegna þess að þú nenntir ekki að skipta um taum. Hann notar eins langa undirlínu á hjólið og kostur er. Er jafnan með aðeins 20 punda undirlínu sem er grönn en það getur skipt miklu máli þegar stórfiskur tekur að geta gefið fiskinum stórt svæði til að taka rokur. Ef undirlínan er of stutt er mögulegt að taumurinn slitni þegar fiskurinn tekur roku. Þorsteinn er með um 170m undirlínu, en sú lengt kemst ekki á "large arbor" fluguhjól.
Að veiða stórrurriða er talsverð vinna. Þú þarft að hafa góða þolinmæði. Það liggja mörg köst á bakvið hvern veiddan stórurriða. En þegar þú ert kominn upp á lagið með þetta og farinn að hafa trú á veiðiaðferðinni sem þú notar eru verðlaunin ótrúleg!
Hér fyrir neðan getur þú smellt á hlekk til að nálgast kynninga frá Þorsteini og við þökkum honum kærlega fyrir að vera tilbúinn að deila henni með okkur.
Smelltu hér á myndina tila fyrir ofan til að opna urriðakynningu Þorsteins í gengum Dropbox – fyrir þá sem vilja eiga kynninguna.
Það styttist klárlega í að veiðimenn geti farið til veiða í þjóðgarðinum, en opnað verður fyrir veiði þar 20. apríl næstkomandi.
Góða skemmtun og við hvetjum veiðimenn til að tryggja sér Veiðikortið í tíma en það má kaupa hér á síðunni og fá það sent heim. Einnig bjóða flest stéttarfélög orðið upp á Veiðikortið á sérkjörum til sinna félagsmanna sem og starfsmanna- og veiðifélög.
Með veiðikveðju,
Veiðikortið.
0 Comments