Tómas Skúlason, betur þekktur sem Tommi í Veiðiportinu, fór ásamt félaga sínum Erni, sem kenndur er við Útilíf, í tveggja daga veiðiferð á Þingvelli.  Þeir gistu í hjólhýsi og ferðuðust þaðan vítt og breitt um vatnið til að prófa sem flesta staði.

 
Þeir urðu lítið varir við fiska, hvorki bleikju né urriða.  Síðasta morguninn dró svo til tíðinda, en Tommi ákvað að taka nokkur köst meðan verið var að taka saman og undirbúa brottför eftir mjög dræma veiði og var hann meira að segja vöðlulaus, enda grunaði hann ekki hverskonar ævintýri væri í vændum.  Hann setti undir flugu sem heitir Páskaunginn og var með sökklínu og 12 punda taum.  Í þriðja kasti var rifið í fluguna og hann var á en bara í skamma stund og fiskurinn slapp.  Tveim köstum síðar var hann aftur á nú var hann fastur.  Fiskurinn rauk út með línuna einhverja 80 m og einhvern veginn náði línan að festast í grjóti og nú var allt fast!
 
Nú voru góð ráð dýr, enda Tommi ekki einu sinni í vöðlum.   Hann kallaði á Örn veiðifélaga sinn eftir aðstoð og hélt hann á stönginni meðan Tommi klæddi sig í vöðlur, því það átti að gera tilraun til að losa línuna úr grjótinu.  Þar sem það er mjög aðdjúpt þar sem þeir voru dugðu vöðlurnar ekki og þá varð að treysta á sundtökin og lét hann sig hafa það að taka nokkur sundtök  út og það hafðist að losa línuna.  Það var kraftaverki líkast að fiskurinn var ennþá á og Tommi náði að landa þessum risaurriða rennblautur upp fyrir haus! 
 
Fiskurinn var hængur og var 97 cm að lengd og ummálið um 57cm og vó hann 23 pund!
 
 
 
 
Fiskurinn er kominn í uppstoppun og munu aðdáendur risaurriðans geta skoðað gripinn þegar hann verður klár í Veiðiportinu, Grandagarði, en þar verður hann hengdur upp á vegg.
 
Hér fyrir neðan má sjá myndir af Tomma með þennan glæsilega urriða og óskum við honum innilega til hamingju með fiskinn!
 
 
 
 
 
 
Eins og sjá má er urriðinn enginn smá smíði! Veiðimenn geta skoðað hann, þegar búið verður
að stoppa hann upp, í Veiðiportinu, Grandagarði.
 
Með veiðikveðju,
Veiðikortið
 

0 Comments

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri frétt
Fín bleikjuveiði í Hópinu
Næsta frétt
Flott fjölskylduferð í Hraunsfjörð!