Það var óvenju lífleg urriðaveiði þegar Þingvallavatnið opnaði formlega. Margir veiðimenn fengu fallega fiska og var greinilegt að sjaldan hefur eins mikið af urriða verið á sveimi upp við vatnið. Bleikjan er hins vegar lítið farin að sýna sig, en sjálfsagt þarf meiri hlýindi til að svo megi verða.
Cezary fór með tveimur sænskum veiðifélögum sínum þjóðgarðinn og lentu þeir í stórveiði og var megninu af fiskunum sleppt aftur, a.m.k. þeim sem voru í stærri kanntinum. Þeir fengu í það minnsta 13 glæsilega urriða frá 3-15 pundum.
Cezary tjáði okkur að óvenju mikið af fiski er í vatninu og virðist hann vera vel dreifður um vatnið. Í nágrenni við þá voru til að mynda tveir veiðimenn að veiða á flugu og fengu þeir vel á annan tug urriða að því er virtist.
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá þeim félögum síðan í gær. Eitt er víst að sænsku veiðimennirnir voru í skýjunum yfir veiðinni.
Hér má sjá þá minnstu úr aflanum.
Sten Nilson, sænskur veiðimaður, með glæsilegan urriða sem fékk frelsi eftir harða baráttu.
Michal Wojtas með fallegan urriða sem hann fékk í gær.
Af öðrum vatnasvæðum höfum við fengið litlar fréttir, nema þó að Steinar Guðmundsson fékk fína veiði í Eyrarvatni í Svínadal en hann fékk þrjá fína urriða 40-45þar í gær 1. maí þannig að vötnin eru hægt og örugglega að lifna við.
Við þökkum Cezary kærlega fyrir myndirnar og upplýsingarnar og hvetjum veiðimenn til að senda okkur fréttir af vatnasvæðum Veiðikortsins í netfangið veidikortid@veidikortid.is
Með veiðikveðju,
Veiðikortið
0 Comments